131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Skipan nefndar fjármálaráðuneytis.

[15:18]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þá var nú fyrri ræðan betri. Ja, hvílík hörmung. Hæstv. ráðherra er að verja gjörð sem er ríkisstjórninni til skammar. Ríkisstjórnin hefur sett sér jafnréttisáætlun og hún nær ekki lengra en það að hæstv. ráðherrar tala ekki einu sinni saman þegar þau ætla að skipa í nefndir. Þau vita ekki hvert af öðru.

Hvers lags framgangur er það eiginlega á jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar að menn skuli ekki einu sinni ræða saman um nefndir sem þeir tilnefna í sjálfir? Það segir allt um það hvað það er mikil meining á bak við þá áætlun.