131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Rússneskur herskipafloti við Ísland.

[15:35]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er ansi aum ríkisstjórn sem er ekki fær um að gæta grundvallaröryggishagsmuna eigin þjóðar þegar eitthvað bjátar á eins og þegar Rússar komu hingað í heimsókn. Þetta var gríðarlega alvarlegt mál. Skipin lágu á grunnslóðinni rétt undan landi í marga daga, hálfan mánuð, 15 sjómílur frá ströndum landsins, um það bil 30 kílómetra. Þetta er álíka vegalengd og frá Kvosinni í Reykjavík upp á Akranes. Það var öll vegalengdin upp að ströndum landsins þar sem skipin lágu.

Við vitum að skipin eru í lélegu ásigkomulagi, við vitum að Rússar hafa hvað eftir annað lent í mjög alvarlegum slysum í Norðurhöfum með kafbáta sína, K-19 árið 1961 norður af Íslandi, Komsomolets við Bjarnarey árið 1989 og Kursk árið 2000 í Barentshafi. Hvað hefði gerst ef eitthvað hefði komið fyrir, ef komið hefði upp bilun í skipunum? Hvað hefðu Íslendingar getað gert? Við hefðum sáralítið getað gert.

Hvers vegna í ósköpunum var rússneski sendiherrann ekki kallaður á fund ríkisstjórnarinnar um leið og menn gerðu sér grein fyrir því hvers konar ófögnuður var kominn að ströndum og hann krafinn skýringa og jafnframt komið á framfæri við hann harðlegum mótmælum gegn því að skipin væru hér og Rússar beðnir um að hypja sig héðan hið fyrsta? Að sjálfsögðu hefði átt að gera það.

Hvað eru menn að æfa á heræfingum? Þeir eru að æfa stríð, styrjöld, þeir eru að æfa gagnárásir á önnur herskip, hugsanlega flugvélar, hugsanlega kafbáta. Þeir eru jafnvel að æfa innrás í landið. Það er ekki flóknara en það. Þetta voru Rússar sennilega að æfa meðan þeir lágu hér í hálfan mánuð ef þeir voru ekki að reyna að gera við einhverja af kláfum sínum.

Þetta atvik leiðir líka hugann að því sem hv. þm. Jónína Bjartmarz benti á og það eru málefni Landhelgisgæslunnar. Fyrst hæstv. dómsmálaráðherra er hér til svara er sjálfsagt að spyrja hann: Hvað líður undirbúningi að smíði nýs varðskips? Við verðum að fara að huga að því að smíða nýtt varðskip, ekki bara eitt heldur fleiri, ekki herskip heldur skip sem eru fær um að mæta svona flota um leið og hann birtist og fylgjast alvarlega með honum. Þetta er mjög alvarlegt mál og má aldrei endurtaka sig.