131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Rússneskur herskipafloti við Ísland.

[15:39]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, fyrir að hefja umræðuna. Umræða um öryggis- og varnarmál er að sjálfsögðu mjög mikilvæg og minnir okkur á stöðu okkar í þeim efnum. Eins og menn þekkja þurfum við sökum smæðar okkar að vera í samstarfi við aðra aðila nú eins og undanfarna áratugi. Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi varaformaður Alþýðubandalagsins, hefði miklar áhyggjur af vígbúnaði Rússa og kallaði til ábyrgðar hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason, en hlutirnir breytast. Á síðustu áratugum voru þetta mikil deilumál eins og menn þekkja. Þá skiptust flokkarnir nokkuð á Alþingi Íslendinga og þrír lýðræðisflokkar stóðu fyrir ábyrgri stefnu í öryggis- og varnarmálum en á móti var Alþýðubandalagið.

Hlutirnir hafa hins vegar breyst og lýðræðisflokkanir eru orðnir tveir, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, en Samfylkingin hefur tekið upp stefnu gamla Alþýðubandalagsins í þessum málaflokki. Það er svolítið kaldhæðnislegt því formaður flokksins, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, kom og vísaði í stefnu Samfylkingarinnar, sem var tilkynnt um helgina, að leggja niður loftvarnir við Ísland.

Ég vek athygli á því, af því að hér hafa menn komið upp og bent á mikilvægi þess að þær séu góðar sem og aðrar varnir Íslands, að ef við færum eftir stefnu Samfylkingarinnar, virðulegi forseti, værum við eina landið í Evrópu sem sæi ástæðu til þess að leggja niður loftvarnir á þessum tíma.

Ég fagna umræðunni, virðulegi forseti og vonast til þess að vinstri menn sjái að sér.