131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Rússneskur herskipafloti við Ísland.

[15:55]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel mig hafa svarað efnislega öllum þeim spurningum sem fram komu. Það er hins vegar að sjálfsögðu fyrirspyrjanda að meta hvort hann telji svörin fullnægjandi.

Ég vil líka láta þess getið að það er rangt að halda því fram að íslensk stjórnvöld hafi ekki látið þetta mál til sín taka. Eins og fram kom í máli mínu var það 29. september sem Landhelgisgæslan fyrst sá þessi skip og síðan var fylgst með þeim þangað til þau fóru héðan út úr okkar nágrenni og út úr lögsögu okkar. Það var síðan tilkynnt þegar sást til Péturs mikla á siglingu hér. Það er eina kjarnorkuknúna skipið sem er í þessum flota, ofan sjávar a.m.k. Við Íslendingar höfum engan tækjabúnað til að fylgjast með ferðum kafbáta og verðum þar að treysta á bandamenn okkar og Bandaríkjamenn. Þannig að við erum ekki í stakk búnir til þess að fylgjast með kafbátum og höfum aldrei verið.

Ef menn eru að tala um að fara út í slíkar aðgerðir, þá er verið að tala um miklu meiri hervæðingu hér en meira að segja ég hef orðað nokkru sinni í þessum sal eða annars staðar. Ég veit ekki til þess að menn hafi verið að tala á þann veg, nema það beri að skilja orð þingmanns Frjálslyndra sem hér hefur talað á þann veg að hann vilji að við komum okkur upp slíkum búnaði. Þá er það algjört nýmæli í þessum umræðum.

Ég tel að þegar litið er til þessara mála verði að líta á alla heildarmyndina og sjá hvernig hún lítur út. Við getum ekki og það hefur enginn haldið því fram að rússnesku skipin hafi verið hér í óvinveittum tilgangi. Menn hafa haft áhyggjur af mengun af þeim. Það er vissulega ástæða til þess að hafa slíkar áhyggjur.

Ég gat þess í máli mínu að rússneski flotinn er ekki í góðu ásigkomulagi, en hins vegar þegar menn eru þar að vitna í flotaforingja og ummæli þeirra um skipin, þá held ég að menn verði að segja söguna alla. Þessi viðkomandi flotaforingi sem formaður Samfylkingarinnar vitnaði oftar en einu sinni í hefur dregið ummæli sín til baka, ef formaðurinn hefði fyrir því að kynna sér staðreyndir málsins.