131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[16:00]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið var þetta mál lagt fram á síðasta þingi og fór í gegnum allsherjarnefnd. Við náðum að fara þar yfir málið og senda frá okkur nefndarálit en síðan fór það ekki lengra hér í þinginu. Allsherjarnefnd gaf sér því nokkurn tíma á vorþinginu til þess að fjalla um þetta mál og kallaði m.a. fjölda manns fyrir nefndina. Þar á meðal voru þeir er skipuðu á þeim tíma gjafsóknarnefnd sem hæstv. ráðherra hafði ekki með í ráðum við smíði þessa frumvarps og ég geri athugasemdir við hér á eftir. Auk þess kom fram fjöldi umsagna til allsherjarnefndar. Það verður að segjast eins og er, virðulegi forseti, að flestar voru þær umsagnir neikvæðar að því er varðar meginefnisbreytinguna í frumvarpinu.

Frumvarpið er þrjár greinar og það felur í fyrsta lagi í sér þrengingu á þeim skilyrðum sem núgildandi lög um meðferð einkamála setja gjafsókn í einkamálum.

Í öðru lagi felur það í sér reglugerðarheimild fyrir dómsmálaráðherra til að kveða nánar á um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar.

Í þriðja lagi er lagt til að lögfest verði sérstök gjafsóknarheimild í lögum um þjóðlendur.

Fulltrúar Samfylkingarinnar í allsherjarnefnd leggjast alfarið gegn þessu frumvarpi og gerðu það í meðferð nefndarinnar í vor. Tilgangur frumvarpsins virðist sá helstur að þrengja verulega að möguleikum almennings til að leita réttar síns með málshöfðun gagnvart stjórnvöldum og opinberum aðilum. Það er, virðulegi forseti, ekki sú þróun sem við viljum sjá eiga sér stað í lýðræðisríki í upphafi 21. aldarinnar.

Frumvarpið mun, verði það að lögum, fela í sér útilokun á möguleikum til gjafsóknar í málum sem geta varðað einstaklinga og almenning miklu. Slíkar takmarkanir eru á skjön við aukna réttarvitund almennings sem ég tel vera mjög af hinu góða, virðulegi forseti, og er m.a. kannski ástæðan fyrir því að slíkum málum hefur fjölgað og kostnaður ríkisins þar af leiðandi aukist eitthvað í þessum málum.

En ekki aðeins er það svo að þetta stangist á við aukna réttarvitund almennings heldur stangast þetta líka á við hefðir sem hafa þróast í öðrum lýðræðisríkjum og ég vil að við horfum líka til, virðulegi forseti. Auk þess eru tillögurnar illa rökstuddar og tilefni breytinganna er ekki nægilega skýrt. Ég undrast það, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra skuli ekki koma hér með frekari röksemdir fyrir þessum breytingum en þær sem koma fram í frumvarpinu og komu fram í vor sem mikil gagnrýni var á, þar sem einungis er talað um að ekki sé forsvaranlegt að hafa svo almennt orðað ákvæði sem grundvallað er á auknum útgjöldum almennings.

Þetta eru ekki boðlegar skýringar, herra forseti, eða boðleg rök fyrir þessum breytingum sem geta varðað almenning miklu. Þar vísa ég máli mínu til stuðnings m.a. til þeirra umsagna sem komu til hv. allsherjarnefndar.

Fyrsta grein frumvarpsins felur ekki í sér neina efnisbreytingu í raun og veru en í henni segir að dómsmálaráðherra sé eftir sem áður heimilt að setja reglugerð um starfshætti gjafsóknarnefndar. Ég geri ekki athugasemdir við þessa grein og ætla ekki að eyða frekari orðum í hana.

Ég hef hins vegar miklar athugasemdir, virðulegi forseti, fram að færa við 2. gr. frumvarpsins sem felur í sér meginbreytinguna sem lögð er til að núgildandi lögum, en þar kemur fram að mínu mati alvarleg atlaga að möguleikum almennings til gjafsóknar í málum sem þó kunna að varða miklu fyrir almenning og varða miklu fyrir almannahagsmuni.

Í gildistíð eldri einkamálalaga tíðkaðist það að gjafsókn var veitt í þeim tilvikum sem greinir í b-lið 1. mgr. 126. gr. núgildandi laga, þ.e. ef mál hafði verulega almenna þýðingu eða varðaði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagsmuni um einkahagi umsækjanda. Þessi heimild var þó í gömlu lögunum. Í eldri lögum var þessi heimild þó háð velvilja ráðherra sem gat hafnað umsókn þótt málið teldist mikilsvert. Það ákvæði sem nú er komið inn í lögin og er í lögunum í dag og hæstv. ráðherra vill breyta er hins vegar efnislega tekið upp úr 16. gr. frumvarps til laga um opinbera réttaraðstoð sem var lagt fram á 112. og 113. löggjafarþingi, þannig að þetta ákvæði sem við höfum í núgildandi lögum var þannig liður í viðleitni til þess að víkka út heimildir til ókeypis lögfræðiaðstoðar fyrir almenning, sem er ekki vanþörf á hér á landi ef miðað er við nágrannalöndin.

Reyndar hafa margsinnis verið lögð fram á Alþingi mál í þessu skyni og má af umræðum um slík mál ráða að mikill vilji — og þess vilja hefur gætt í öllum eða a.m.k. langflestum stjórnmálaflokkanna í umræðum um slík mál — hefur verið til að auka slíka þjónustu en ekki til að þrengja að henni, eins og hæstv. ráðherra er að gera í þessu máli.

Ég er því þeirrar skoðunar að réttara hefði verið af hæstv. ráðherra að fara þá leiðina að auka möguleika almennings á ókeypis réttaraðstoð í stað þess að takmarka slíkar heimildir enn frekar eins og lagt er til í frumvarpinu. Ákvæði b-liðar 1. mgr. 126. gr. einkamálalaga, sem nú á að fella út, hefur verið í lögum rúman áratug og ekki er hægt að ráða það, virðulegi forseti, af gögnum sem voru lögð fyrir hv. allsherjarnefnd að ákvæðið hafi valdið vandkvæðum í framkvæmd. Eins og ég sagði í upphafi skortir að mínu mati rökstuðning fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu. Í athugasemdum með frumvarpinu segir að skilyrðið um gjafsókn skv. b-lið 1. mgr. sé „afar víðtækt og þykir ekki forsvaranlegt að verið sé að kosta málshöfðun eða málsvörn einstaklinga af almannafé á grundvelli svo almenns ákvæðis.“

Svona er það orðað, virðulegi forseti.

Þetta var m.a. rökstutt í umsögnum sem bárust allsherjarnefnd að væru alls ekki nægileg rök eða nægilega vel ígrunduð rök fyrir því að breyta ákvæði sem getur varðað almenning svo miklu. En ekki er að finna annan rökstuðning fyrir niðurfellingu þessarar heimildar og því hlýtur að mega ráða að fyrst og fremst sé verið að fella þetta ákvæði niður í sparnaðarskyni.

Ég hlýt því að velta fyrir mér, virðulegi forseti, hvort þarna sé akkúrat það svið sem við þurfum að grípa til sparnaðar á. Er það svo að fé almennings hafi verið sóað í óhóflega réttaraðstoð fyrir almenning? Má skilja það svo, virðulegi forseti, að breytingin sé til komin þess vegna? Hvað er að gerast í öðrum löndum?

Gjafsóknarmálum hefur vissulega fjölgað verulega á undanförnum árum, sem er fyrst og fremst til marks um aukna réttarvitund almennings. Almenningur er orðinn meðvitaðri um rétt sinn og sækir hann frekar en kannski áður var. Ég tel, virðulegi forseti, að það sé af hinu góða og það eigi einmitt að hvetja til þess að það sé gert.

Fulltrúi dómsmálaráðuneytisins áætlaði fyrir allsherjarnefnd í vor að sparnaður með frumvarpinu gæti numið 10–15 millj. kr. árlega, sem er einungis örlítið hlutfall af heildarkostnaði ríkisins vegna gjafsókna. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég tel vandséð hvernig hægt sé að réttlæta slíkan sparnað á kostnað þeirra ríku almannahagsmuna og hagsmuna einstaklinga sem í húfi eru. Ég tel því að þarna sé verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni og þess vegna leggst ég gegn þessari breytingu í því formi sem hún liggur fyrir í frumvarpinu.

Reyndar er gert ráð fyrir að áfram sé inni heimild til gjafsóknar í málum þar sem efnahag umsækjenda er þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans yrði honum ofviða. Guði sé lof, virðulegi forseti, fær það ákvæði nú að standa áfram. En sú heimild hrekkur hins vegar skammt þegar þess er gætt að við mat á því hvort gjafsókn sé veitt á grundvelli efnahags umsækjanda hefur verið höfð hliðsjón af skattleysismörkum á hverjum tíma. Þetta kom fram fyrir hv. allsherjarnefnd í vor.

Heimildin er þess vegna afar þröng auk þess sem réttlætisrök geta að sjálfsögðu verið fyrir heimild til gjafsóknar alveg burt séð frá efnahag. Þrengingin sem lögð er til í frumvarpinu mun fela í sér að gjafsókn verður útilokuð í málum sem eru mikilsverð réttlætismál fyrir hagsmuni einstaklinga og almennings.

Samkvæmt upplýsingum sem gjafsóknarnefnd gaf allsherjarnefnd í vor kunna slík mál t.d. að varða heimtu skaðabóta fyrir varanlega örorku, þegar örorka er mikil en aflahæfi verulega skert, málið varðar bætur fyrir missi framfæranda, lífeyrisréttindi, atvinnuréttindi og eignaréttindi, réttindi varðandi friðhelgi einkalífs og önnur hefðbundin mannréttindi. Þetta kom m.a. fram í máli gjafsóknarnefndarmanna sem komu fyrir nefndina í vor. Eru þetta málin, virðulegi forseti, sem hæstv. ráðherra telur óþarfi að veita gjafsókn í? Hvaða mál eru það, virðulegi forseti, sem hæstv. dómsmálaráðherra telur óþarfi að veita gjafsókn í og telur ekki forsvaranlegt að sóa fé almennings í að veita gjafsókn?

Einnig eru dæmi um, virðulegi forseti, eftir því sem kom fram í allsherjarnefnd í vor, að gjafsókn hafi verið veitt á grundvelli þessarar heimildar vegna ófrjósemisaðgerðar og vönunar þar sem vafi lék á um heimild til aðgerðanna. Einnig gætu mál vegna læknamistaka fallið hér undir. Eru þetta mál, virðulegi forseti, sem hæstv. dómsmálaráðherra telur ekki forsvaranlegt að veita fé almennings í, nema í þeim tilvikum sem efnahag umsækjenda er verulega ábótavant? Erum við ekki að tala um mannréttindi, virðulegi forseti, í slíkum málum? Ég hefði haldið að þá skipti efnahagur fólks ekki öllu máli.

Þá gæti gjafsókn samkvæmt b-lið 1. mgr. 126. gr., sem er verið að fella hér niður, verið veitt í málum þar sem einstaklingar leita réttar síns gagnvart stjórnvöldum. Slík mál gætu t.d. verið vegna umhverfismála, kærur vegna kosninga eða vegna ráðherraúrskurða að því er gjafsóknarnefnd greindi okkur frá í allsherjarnefnd í vor.

Ég tel einnig, eins og ég hef reyndar aðeins minnst á áður, að það skorti verulega á að gerð sé nægileg grein fyrir markmiðum þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu og tek þar með undir gagnrýni sem m.a. kom fram í umsögn Lögmannafélags Íslands um þetta atriði. Þar segir m.a. að þau rök sem fram komi í frumvarpinu fyrir breytingunni fullnægi ekki þeim kröfum sem gera verði til rökstuðnings og tilgreiningar tilefnis og markmiðs með ráðgerðum breytingum.

Ef markmið frumvarpsins er fyrst og fremst, eins og lesa má út úr athugasemdum við frumvarpið, að lækka kostnað ríkissjóðs vegna gjafsókna þyrfti það að koma skýrt fram í athugasemdum og ég hlýt að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra að því áður en lengra er haldið hvort það sé rétt skilið að það sé fyrsta og síðasta markmið sem hann hefur að leiðarljósi þegar hann leggur fram þetta frumvarp.

Síðan er sér kafli, sem er 3. gr. frumvarpsins, þ.e. breyting á gjafsóknarheimild þjóðlendulaga. Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að heimilt sé að veita aðila máls sem rekið er á grundvelli þjóðlendulaga, nr. 58 frá 1998, gjafsókn eða gjafvörn ef mál hans hefur að mati gjafsóknarnefndar verulega almenna þýðingu eða varðar verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjenda.

Það er í sjálfu sér eðlilegt að heimild sé veitt til gjafsóknar í slíkum málum, ég tel svo vera. En með hliðsjón af því að til stendur að fella heimildina niður í öllum öðrum málum þá hljómar einkennilega að gera þessa undantekningu. Og ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst það ekki heldur nægilega rökstutt í athugasemdum við frumvarpið af hverju þessi málaflokkur er sérstaklega tekinn út úr. Röksemdir fyrir því að gera undantekningu í þjóðlendulögunum eru þar af leiðandi jafnfátæklegar og allar aðrar röksemdir sem fylgja þessu frumvarpi.

Jafnræðisrök eru nefnd til sögunnar, þ.e. að þar sem málarekstur sé þegar hafinn vegna ákvörðunar óbyggðanefndar á einu svæði þyki rétt að sömu reglur gildi vegna mála sem rekin yrðu á öðrum svæðum. En auðvitað eiga þessar röksemdir við um alla aðra málaflokka, virðulegi forseti. Af hverju í ósköpunum hafa mál vegna ákvörðunar þjóðlendunefndar það mikla sérstöðu að hæstv. ráðherra telur réttlætanlegt að gera undantekningu hvað þau varðar? Það má með sömu jafnræðisrökum halda því fram í öðrum málaflokkum að það eigi líka við, að ástæða sé til að gera undantekningu.

Þessi málatilbúnaður er því bara til marks um það að mínu mati hversu vanhugsað það er að fella þessa almennu heimild brott úr einkamálalögum. Ég er þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að með þessari breytingu þrengi ríkisstjórnin markvisst að möguleikum almennings til að sækja rétt sinn gagnvart stjórnvöldum og opinberum aðilum og þar er að mínu mati horft til fortíðar, því miður, virðulegi forseti. Verið er að fara aftur í tímann í þeirri þróun sem við höfum séð hingað til hér á landi, þótt fátækleg hafi verið hefur hún þó verið í rétta átt. Og ef horft er til annarra ríkja er alls staðar verið að stefna í öfuga átt í ljósi þess hversu mannréttindi eru viðurkenndari nú og það að borgararnir eigi þann sjálfsagða rétt að sækja sín mál sín gagnvart opinberum aðilum, þá hefur þróunin verið í öfuga átt. En hér á landi, virðulegi forseti, er verið að fara allt aðrar leiðir sem ég tel miður og verð því að lýsa því yfir hér strax í 1. umr. að ég er alfarið á móti þeirri efnisbreytingu sem kemur fram í frumvarpinu.

Ég hefði talið eðlilegra og meira í anda nútímalegra vinnubragða, virðulegi forseti, að auka möguleika almennings til opinberrar réttaraðstoðar frekar en að þrengja enn verulega að honum. Mér finnst það fátækleg rök að nefna þær 10–15 millj. kr. sem hugsanlega kunna að sparast vegna breytinganna þegar hafðir eru í huga almennir hagsmunir og e.t.v. möguleikar almennings til þess að sækja mál sín fyrir gagnvart stjórnvöldum.

Ég vil líka nefna að samkvæmt þessum tillögum yrði t.d. ekki talið mögulegt að sækja gjafsókn ef menn vildu leita sér aðstoðar fyrir erlendum dómstólum eins og Mannréttindadómstóli Evrópu. Í löndunum í kringum okkur hefur verið talið æskilegt að fólk ætti möguleika á að sækja sér slíka réttaraðstoð, eins og m.a. kom fram hjá bæði fulltrúa Lögmannafélagsins og einhvers staðar víðar í umsögnum, því í ljósi þess hvernig þróunin hefur verið eiga mannréttindi að sjálfsögðu ekki bara að snúast um fjárhag fólks.

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst eins og heyra má af þessari ræðu minni að ég treysti mér til þess núna strax við 1. umr., sem ég geri ekki mjög oft, að lýsa mig andsnúna meginefni þessa frumvarps einkum í ljósi þess að það fékk góða umfjöllun í hv. allsherjarnefnd og því miður þá hefur hæstv. dómsmálaráðherra tekið mið af athugasemdum allsherjarnefndar og þeim breytingum sem meiri hluti allsherjarnefndar lagði til. Hann hefur hins vegar ekki tekið mið af þeim alvarlegu athugasemdum sem komu fram hjá minni hlutanum eða í fjölda umsagna sem komu fram um málið.