131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[16:24]

Örlygur Hnefill Jónsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra mælir fyrir þessari lagabreytingu sem hér er til umræðu. Mér fannst hæstv. dómsmálaráðherra leggja mikið út af því að kostnaður við þessi mál væri að aukast. Auðvitað ber hæstv. dómsmálaráðherra sem vörslumanni ríkisfjár á sínum pósti að passa upp á þessa hluti og er það vel að svo sé. Það er aftur spurning hvers vegna þetta er að aukast.

Ég vil ætla, hæstv. dómsmálaráðherra leiðréttir mig þá í því, að almennt sé málum fyrir dómstólum að fjölga, umfang löggjafar sem sett er fyrir þegnana er allt að verða meira og af því getur leitt meiri ágreining en þar sem löggjöf er lítil að vöxtum og einföld. Það glímum við auðvitað við í hinum hefðbundnu dómstólum óháð gjafsókn.

Hér er verið að fara nokkuð inn á það að ákvarða þessa hluti í reglugerðum. Ég er mjög mótfallinn því að reglugerð leysi allt af hólmi. Við eigum að mæla ítarlega fyrir um hlutina í löggjöf og ég hefi talið og flutt um það þingsályktunartillögu á yfirstandandi þingi og áður í tvígang, um eftirlit Alþingis með framsali löggjafarvalds, af því Alþingi hefur að mínu viti gengið allt of langt í því að framselja löggjafarvald til framkvæmdarvaldsins og það þarf að skerpa skilin sem mælt er fyrir um í 2. gr. stjórnarskrár. Það er auðvitað Alþingi sem fer með löggjafarvaldið. Hér erum við að tala um það sem snýr að dómsmálum.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fella burt b-lið 126. gr. laganna eins og hann hljóðar núna, þar sem rætt er um mál sem hafa verulega almenna þýðingu. Ég hef litið þannig á þau mál sem stundum hafa verið kölluð prófmál, að eitt mál varðar marga, að þeir sem eru að leggja í slík mál gerast vissir brautryðjendur, ryðja slóð fyrir aðra og taka það á sínar herðar. Það réttlætismál að mínu viti að hið opinbera leggi sitt til að auðvelda þeim þá göngu. Það léttir líka það sem á eftir fer.

Hæstv. dómsmálaráðherra talaði um að kostnaður hefði aukist hér. Mig langar til að spyrja hann hvort hann hafi upplýsingar um að kostnaður vegna gjafsóknarmála hafi vaxið og hvort það sé þá línuleg fylgni. Hefur gjafsóknarmálakostnaður verið að vaxa umfram annan kostnað af auknum málafjölda?