131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[16:36]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að hæla hæstv. ráðherra fyrir það að hann gaf yfirlýsingu um að reglugerðin yrði kynnt fyrir allsherjarnefnd áður en hún verður birt. Það er sannarlega virðingarvert og ekki vanþörf á í málum sem hafa verið gagnrýnd eins og þetta mál. Það er því virðingarvert og ég tek það sérstaklega fram.

Komið hefur fram í umræðunni að hér sé um fremur lága upphæð að ræða og ekki mörg mál. Þetta er engu að síður upphæð sem skiptir sköpum fyrir þá einstaklinga sem hlut eiga að máli. Það er alveg ljóst að b-liður 126. gr. sem gjafsóknarnefnd hefur haft tök á að veita fólki gjafsókn út á hefur ekki verið mikið notaður en hefur verið notaður í málum þar sem fólk hefur stefnt ríkinu vegna t.d. ráðherraúrskurða.

Þess vegna sýnist mér alveg augljóst að hæstv. ráðherra sé að beita sér fyrir því að slík mál komi ekki lengur upp á borð sem gjafsóknarmál. Það verði eingöngu fólk sem á umtalsverða fjármuni umleikis sem getur farið í þannig mál eða treystir sér til þess. Auðvitað veit hæstv. ráðherra eins vel og við öll að það er undir hælinn lagt hvort mál vinnast fyrir dómi eða ekki. Fólk getur aldrei vitað fyrir fram hvort mál vinnast eða ekki og kannski allra síst mál af því tagi sem hér um ræðir, þar sem stjórnsýslulegur vafi getur leikið á um stjórnsýslulegar athafnir hæstv. ráðherra.

Ég segi því enn og aftur að það er ámælisvert að hér skuli verið að taka úr sambandi möguleika á gjafsókn þess fólks og þeirra mála sem hér um ræðir. Ég stend því fast við gagnrýni mína.