131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[16:38]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Verið er að ákveða, ef frumvarpið verður að lögum, að þeir fjármunir úr ríkissjóði sem nýta skuli til gjafsókna skuli renna til þeirra sem minnst fjárforræði og minnst fjárráð hafa í landinu. Þau mál sem hv. þm. ber sérstaklega fyrir brjósti tel ég að snerti ekki þann hóp fólks. Ég held að aðrir standi í málaferlum en þeir sem þurfa í raun og veru á fjárstuðningi ríkisins að halda til þess að stofna til málaferla. Verið er að leggja á ráðin um að þeir opinberu fjármunir séu nýttir í þágu þeirra sem þurfa á þeim að halda, vegna þess að þá skortir fé til þess að fara í málaferli.

Þeir sem hv. þm. ber fyrir brjósti eru ekki í þeim flokki. Það er alveg ótvírætt að mínu mati að það fólk er ekki að velta þeim málum fyrir sér sem hv. þm. gerir að umtalsefni.