131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[16:39]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst andsvar hæstv. ráðherra staðfesta það sem ég sagði í fyrra andsvari mínu, að það er einmitt það sem hæstv. ráðherra ætlar að forðast með lagasetningunni. Hann ætlar að forðast það að einstaklingar geti fengið gjafsókn ef þeir telja sig eiga eitthvað sökótt við hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni, telja hæstv. ráðherra misfara á einhvern hátt með vald sitt. Það er ósköp eðlilegt að menn vilji reyna að komast undan slíkum málum og segja: „Þeir verða bara að kosta það sjálfir þeir einstaklingar úti í bæ sem vilja setja spurningarmerki við stjórnvaldsaðgerðir hæstv. ráðherra.“

Ég er því ekki að gera athugasemdir við það að efnalítið fólk fái gjafsókn, en ég geri athugasemdir við það að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherrar skuli beita sér fyrir því að ráðherrarnir komist hjá því að fá á sig málshöfðanir sem fólk færi mögulega ekki út í fengi það ekki gjafsókn. Þar eru t.d. umhverfismálin hátt skrifuð, mál er varða kosningar og önnur mál sem lúta beinlínis að stjórnsýslu hæstv. ráðherra.

Ég get ekki annað en mótmælt hæstv. ráðherra enn einu sinni varðandi það að ekki sé fótur fyrir ásökunum okkar um að málin séu illa rökstudd, þá spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaða rökstuðningur er það varðandi það að fella niður b-lið í 126. gr., þar sem segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Ákvæði b-liðar er afar víðtækt og þykir ekki forsvaranlegt að verið sé að kosta málshöfðun eða málsvörn einstaklinga af almannafé á grundvelli svo almenns ákvæðis.“

Þetta er eini rökstuðningurinn. En auðvitað hefur hæstv. ráðherra komið inn á það í andsvari sínu hvað býr raunverulega að baki.