131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[16:44]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ekki hafa andsvör eða frekari svör hæstv. ráðherra í málinu sannfært mig, heldur þvert á móti sýnt fram á og sannað það sem ég hélt fram í fyrri ræðu minni, að með frumvarpinu er hæstv. ríkisstjórn fyrst og síðast að koma í veg fyrir eða þrengja möguleika almennings til þess að sækja mál á hendur opinberum aðilum. Það er ekkert annað sem býr að baki, virðulegi forseti.

Hæstv. dómsmálaráðherra segir, og hann má eiga það að hann segir það hreint út, að honum finnist eðlilegt að hafa það fyrirkomulag að borgararnir geti sótt mál gagnvart stjórnvöldum ef þeir telja á sér brotið, m.a. vegna mannréttinda, en einungis eðlilegt að þeir fái gjafsókn ef þeir hafi bágan efnahag.

Ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, að miðað hefur verið við skattleysismörk í þessum efnum, sem mér er sagt að séu í kringum 72 þús. kr. í dag. Hæstv. dómsmálaráðherra telur eðlilegt að þeir sem eru yfir þeim mörkum, yfir þeim tekjum, eigi ekki rétt á að fá gjafsókn í málum sem hér hafa verið talin upp af hugsjónafólkinu, sem hæstv. dómsmálaráðherra kallar svo, andstæðingum þessa frumvarps. Hvaða mál vorum við að tala um? Meðal annars öll helstu mannréttindi, t.d. réttindi er varða friðhelgi einkalífs og önnur hefðbundin mannréttindi. Ef borgararnir vilja sækja það gagnvart hæstv. dómsmálaráðherra Birni Bjarnasyni og telja á sér brotið þá fá þeir ekki gjafsókn í þeim málum samkvæmt tillögum hans nema að tekjur þeirra séu 72 þús. kr. eða þar undir.

Mér finnst þetta, virðulegur forseti, undarlegur málflutningur. Ég verð að segja eins og er, að mig hryllir við þessum málflutningi. Ef vandamálið væri svo gríðarlega stórt og kostnaður ríkisins svo gríðarlegur af þessum málum að ástæða væri til að halda að óeðlileg þróun væri í gangi þá mundi ég skilja hæstv. dómsmálaráðherra betur.

Aðspurður gat ráðherra ekki svarað því hvort þessi fjölgun væri meiri en fjölgun mála fyrir dómstólum á sama tíma. Kann að vera, virðulegi forseti, að það sé eðlileg skýring á þessari aukningu, að málum fyrir dómstólum hafi einfaldlega fjölgað og hlutfall mála af þessu tagi sé hið sama og áður hefur verið? Þessu verður hæstv. dómsmálaráðherra að svara. Ég hefði talið eðlilegra að hann svaraði því áður en hann legði fram slíkt frumvarp á grundvelli sparnaðar. (Dómsmrh.: Það var gert á þinginu í fyrra.) Þessu var ekki svarað á þinginu í fyrra, virðulegi forseti. Þá var svarað fyrirspurn hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar, ef ég man rétt. Þar kom ekki fram hlutfall þessara mála. Þar komu fram tölur og fjöldi mála en eftir því sem ég best man kom það ekki fram hvort hlutfall gjafsóknarmála af heildarfjölda dómsmála væri stærra. Auðvitað hlýtur það að vera grundvallarstærð í þessu máli.

Ég sé ekki betur en að fyrir hæstv. dómsmálaráðherra liggi fyrirspurn þar sem nákvæmlega þetta kemur fram. Þetta er grundvallaratriði. (Dómsmrh.: Henni verður svarað.) Henni verður svarað en ég hefði haldið, virðulegi forseti, að betra væri fyrir hæstv. dómsmálaráðherra að skoða þetta áður en hann leggur fram sparnaðarhugmyndir af því tagi sem hér birtast, sem geta varðað hagsmuni almennings svo miklu.

Ég hef þvert á móti harðnað í andstöðu minni. Mér finnst af máli hæstv. dómsmálaráðherra að dæma sem hann sýni ákveðna lítilsvirðingu, og það kemur mér á óvart, málum þar sem borgararnir sækja rétt sinn gagnvart ríkisvaldinu. Kannski hefur hann verið allt of lengi við völd. Það kann að ráða því að hann er farinn að horfa til þess sem ákveðins óþarfa að almenningur og borgarar þessa lands skuli sækja rétt sinn, m.a. í mannréttindamálum. Jú, allt í lagi, þeir geta fengið gjafsókn ef þeir eru bláfátækir og tekjur þeirra eru undir 72 þús. kr. en ekki ef þeir hafa 73 þús. kr. eða 74 þús. kr. í tekjur. Mér finnst að í máli hæstv. dómsmálaráðherra birtist okkur alvarleg þróun. Ég vara við því að þessi leið sé farin án þess að fyrir liggi svör við ákveðnum grundvallarspurningum sem ég hef minnst á.

Mér virðist hæstv. dómsmálaráðherra láta að því liggja að það hafi verið vandamál við framkvæmd þessara mála, verið einhver lausung í þessu. Hann talaði um það áðan að óeðlilegt væri að menn gætu endalaust fengið gjafsókn í málum sem jafnvel væru ekki nægilegt tilefni málssóknar, væru illa rökstudd o.s.frv. Ég held að hæstv. dómsmálaráðherra viti það jafn vel og ég að það er til reglugerð um starfshætti gjafsóknarnefndar. Þar er mjög skýrt um þetta fjallað. Í 2. gr. þeirrar reglugerðar segir m.a., með leyfi forseta:

„Umsókn skal vera ítarlega rökstudd og þar skal meðal annars fjallað um:

a. helstu málsatvik, málsástæður og lagarök,

b. hvort nægilegt tilefni sé til málshöfðunar eða málsvarnar,

c. fjölskylduhagi umsækjanda ...“ — o.s.frv.

„d. hvort úrlausn máls hafi almenna þýðingu ...“

Þetta er mjög ítarlega tilgreint í reglugerðinni. Ég veit að hæstv. dómsmálaráðherra veit jafn vel og ég að gjafsóknarnefnd hefur starfað eftir mjög skýrum reglum. Þær eru birtar á vef hæstv. dómsmálaráðherra, þ.e. vef dómsmálaráðuneytisins.

Mér finnst ekki rétt að láta að því liggja og gefa í skyn að einhver lausung hafi verið á þessu, að þetta sé opin bók fyrir almenning, að ná sér í fría málssókn fyrir dómstólum eins og framkvæmdin hefur verið. Þvert á móti þá virtist mér, í umfjöllun allsherjarnefndar og eftir að hafa rætt við þá sem fyrir nefndina komu, að ekki hafi verið neinir hnökrar á þessari framkvæmd. Sú röksemdafærsla gengur einfaldlega ekki upp.

Eftir standa, að því er mér finnst, lítilsgild rök hæstv. ráðherra fyrir því ástæða sé til að þrengja að möguleikum borgaranna til að sækja rétt sinn ef þeir telja á sér brotið. Við skulum muna það, virðulegi forseti, að um er að ræða mál þar sem fólk telur á sér brotið af hendi opinberra aðila eða stjórnvalda. Ég tel að þrengt sé um of að möguleikum fólks til málssóknar með því að miða það við skattleysismörk að fólk eigi rétt á gjafsókn.

Mér finnst að hæstv. dómsmálaráðherra ætti ekki að þurfa að leggja í slíka vegferð. Ég stend við það sem ég sagði áðan og fleiri hafa sagt það. Mér finnast þetta illa rökstuddar breytingar. Hæstv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir endurtók það sem við báðar og fleiri höfum nefnt hérna til sögunnar úr greinargerð með frumvarpinu, að það þyki „ekki forsvaranlegt að verið sé að kosta málshöfðun eða málsvörn einstaklinga af almannafé á grundvelli svo almenns ákvæðis.“

Ef það hefðu verið raunveruleg vandamál með framkvæmdina, ef það hefði verið lausung á málinu og það óskýrt, ákveðin réttaróvissa í gangi og ef gjafsóknarnefnd hefði veitt slíkar heimildir á grundvelli geðþóttaákvarðana, þá mundi ég skilja hæstv. dómsmálaráðherra. En svo virðist bara ekki hafa verið. Ég bið hæstv. dómsmálaráðherra að upplýsa það ef svo hefur verið, hafi verið ávísað ótæpilega á ríkissjóð á grundvelli gjafsóknarákvæðisins.

Enn og aftur: Ég hef frekar herst í trú minni og afstöðu gegn þessu frumvarpi, virðulegi forseti.