131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[16:54]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra er ekkert að gera neitt skýrara. Hann er að taka út ákveðna heimild í b-lið 1. mgr. 126. gr. einkamálalaganna. Hann er að taka hana út, virðulegi forseti. Það er ekki rétt að með því séu viðkomandi ákvæði gerð skýrari. Það er bara ekki rétt. Það er verið að fella niður ákveðna heimild. Hins vegar kann að vera að komið væri til móts við álit umboðsmanns Alþingis með því að setja inn skýra reglugerðarheimild eða eitthvað slíkt í lögin. Hæstv. ráðherra heldur því fram að umboðsmaður Alþingis hafi farið fram á þessa breytingu. Deilan snýst um að taka út þessa tilteknu gjafsóknarheimild. Það er hæstv. dómsmálaráðherra að gera og um það snýst deilan.

Ég bið hæstv. dómsmálaráðherra um að benda mér á það álit umboðsmanns Alþingis þar sem hann — fróðlegt væri ef það væri hreinlega lesið upp úr því, virðulegi forseti — leggur til að þessi tiltekna gjafsóknarheimild sé felld úr lögunum. Ég bið hæstv. dómsmálaráðherra að sýna mér það. Þá skal ég fremur beina gagnrýni minni að umboðsmanni Alþingis, hafi hann lagt það til. Umboðsmaður Alþingis kann að hafa lagt til breytingar á öðrum atriðum, t.d. að skýrar reglugerðarheimildir séu í lögum, sem er eðlilegasti hlutur í heimi, eins og 1. gr. gerir ráð fyrir. Mér finnst ansi ólíklegt, og leyfi mér að efast stórlega um það hér, virðulegi forseti, að umboðsmaður Alþingis hafi lagt til að þessi tiltekna heimild b-liðar 1. mgr. 126. gr. einkamálalaganna yrði felld út úr íslenskum lögum.

Auðvitað er verið að gera lög skýrari með því að fella þau niður, það má alveg segja það. En ég leyfi mér að efast um að umboðsmaður Alþingis hafi lagt það til.