131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[16:57]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Deilan snýst um tiltekið ákvæði þessa frumvarps og það veit hæstv. dómsmálaráðherra jafn vel og ég. Ágreiningurinn er fyrst og fremst um niðurfellingu b-liðarins, sem oft hefur verið nefndur til sögunnar. Ég leyfi mér a.m.k. að draga þá ályktun af ræðu hæstv. dómsmálaráðherra að hann haldi því ekki fram að umboðsmaður Alþingis hafi lagt til niðurfellingu þessa liðar. Það er umdeildast í þessu máli og á því byggi ég andstöðu mína.

Varðandi þjóðlenduákvæðið þá er ekki rétt að ég hafi sagt að engin rök hafi verið færð fyrir því. Ég sagði að sú röksemdafærsla væri jafnfátækleg og önnur röksemdafærsla í frumvarpinu. Ég dró það m.a. fram að til sögunnar væru nefnd jafnræðisrök, þ.e. að þar sem málarekstur sé hafinn vegna ákvarðana óbyggðarnefndar á einu svæði þyki rétt að sömu reglur gildi vegna mála sem rekin eru á öðrum svæðum.

Ég benti líka á, virðulegi forseti, og trúi ekki öðru en hæstv. dómsmálaráðherra hafi heyrt það, að því nákvæmlega sama megi halda fram varðandi aðra málaflokka. Það eru önnur mál í gangi í öðrum málaflokkum þar sem fólk nýtur rýmri réttinda en sá sem yrði fyrir nýju lögunum hæstv. dómsmálaráðherra ef þau verða einhvern tímann að lögum. Ég undrast þetta, þótt ég ímyndi mér að ástæðan sé sú að þjóðlendulögin hafa ákveðna sérstöðu vegna þess að þar fer ríkið beinlínis gegn einstaklingum og á frumkvæðið að því. En auðvitað upplifa þeir einstaklingar sem telja sig órétti beitta af hálfu ríkisvaldsins eða opinberra aðila það nákvæmlega sama, að þeir séu órétti beittir.

Á fundi hjá hæstv. allsherjarnefnd var meira að segja nefnt dæmi um það þegar einstaklingur er pikkaður út vegna þess að nota á hann sem prófmál í málssókn skattyfirvalda gagnvart tilteknum hópi einstaklinga. Það má með sömu rökum segja að í slíkum málum þurfi að gæta jafnræðis og allir eigi þá að njóta gjafsóknar í slíkum málum. Ég sé ekki að rök séu fyrir því að draga þjóðlendulögin sérstaklega út, með fullri virðingu fyrir rétti þeirra sem þar eiga í hlut.