131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Atvinnuvegaráðuneyti.

15. mál
[18:11]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það hefur sýnt sig í mörgum umræðum á Alþingi alveg eins og í dag að menn úr öllum flokkum, held ég a.m.k., sem hér hafa haft fulltrúa hafa haft þá skoðun að það ætti að endurskoða Stjórnarráðið. Bent hefur verið á þá vankanta, þá skörun sem er víða milli ráðuneyta og þá óhagkvæmni sem af því leiðir og peningasparnað sem gæti orðið. Hann er auðvitað alltaf mikilvægur en aðalatriði málsins er auðvitað að skipulagið virki, verkaskipti milli ráðuneyta séu eðlileg og að málaflokkar séu á þeim stað þar sem skynsamlegast er að ráða þeim málum til lykta sem þar eiga undir.

Hins vegar hefur sýnt sig í gegnum tíðina að á svona málum er ekki tekið við stjórnarmyndanir. Þá takast menn á um það hvaða ráðuneyti eru til skiptanna milli þeirra flokka sem ætla að mynda ríkisstjórn og frá því er engin undantekning eða hefur ekki verið á undanförnum árum, hvaða flokkar sem hafa átt í hlut. Það hefur nefnilega litlu verið breytt hvað þetta varðar nema þá að fjölga ráðuneytum eins og raun ber vitni, og ráðherrum. Nú eru ráðherrarnir 12 eins og postularnir og það er tala sem er kannski erfitt að hnika frá. Það er umhugsunarefni hvort það yrði jafnerfitt að fækka ráðherrum um fimm eða sex eins og það reyndist Framsóknarflokknum erfitt að fækka sínum ráðherrum um einn í vetur.

Skyldi það vera að pólitískir erfiðleikar flokka hafi beinlínis komið í veg fyrir að tekið væri á þessum málum af skynsemi? Ég held að aðalástæðan fyrir því að ekki er búið að breyta Stjórnarráðinu sé að pólitísku flokkarnir sem hér hafa verið við völd hafa ekki treyst sér til að taka á málinu þó að til staðar séu þau sjónarmið sem hér hafa svo skýrt komið fram. Þess vegna finnst mér að Alþingi þurfi að koma til og ég held að það sé einnar messu virði að flytja tillögu af því tagi sem hér er gert. Mér finnst að Alþingi eigi að þrýsta á og að sú sameiginlega skoðun svo margra sem raun ber vitni á þessu máli eigi að komast til skila með því að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt.

Hv. 2. þm. Reykv. n., Ásta Möller, sagði áðan að sér fyndist of skammt gengið með þessari tillögu. Það yrði æðimikil breyting þótt ekki yrði gert annað en hér er til lagt. Það yrði mesta breyting á Stjórnarráðinu sem sést hefur held ég síðan lýðveldið var stofnað því að hitt hefur allt verið tekið í smærri skrefum en því sem hér er lagt til.

Þó felst fleira í tillögunni en það að fækka ráðuneytum og steypa þeim saman í eitt. Það felst í tillögunni að endurskoðun fari fram á verkefnum annarra ráðuneyta og ég vil draga athygli að því að Ríkisendurskoðun gæti leikið þar hlutverk. Það er reyndar nefnt í greinargerðinni. Þó að það sé hvergi sagt berum orðum er eitt af hlutverkum Ríkisendurskoðunar að endurskoða Stjórnarráðið. Það eru engar aðrar stofnanir tilteknar sem Ríkisendurskoðun á að endurskoða. Auðvitað er það í verkahring Ríkisendurskoðunar að fara yfir starfsskipulag Stjórnarráðsins og benda á hvað betur megi fara í þeirri stjórnskipun sem gildir. Þess vegna bendum við á að það þurfi að skoða þetta mál líka og út úr því gætu komið skynsamlegar ábendingar sem gætu leitt til pólitískrar niðurstöðu.

Það sem er svo mikilvægt í þessu er að svona hugmyndir séu ræddar í dálítilli fjarlægð frá kosningum og stjórnarmyndunum. Það er alveg nóg að eiga við þá andstöðu sem við sem viljum breyta þessu eigum auðvitað vísa frá þeim ráðherrum sem finnst stólarnir hitna undir sér. Þess vegna er svo nauðsynlegt að menn fáist við þetta mál sem mest þegar á leiðinni er að verða til einhver ný ríkisstjórn þar sem menn þurfa að skipta stólum. En það er auðvitað ekki boðlegt eins og hér hefur verið bent á hversu mjög starfsemi ráðuneytanna skarast. Við höfum farið yfir það fyrr í umræðum að bara í einum litlum firði á Íslandi geta t.d. iðnaðarráðuneytið, landbúnaðarráðuneytið, sjávarútvegsráðuneytið, umhverfisráðuneytið og viðkomandi sveitarfélag átt lögsögu í málefnum sem varða nýtingu á botninum og/eða fiskeldi sem fari fram í viðkomandi firði.

Þannig liggur þetta allt saman þvers og kruss milli ráðuneyta og öll höfum við í starfi okkar rekist á fólk sem bókstaflega skilur hvorki upp né niður vegna þess að því er vísað fram og til baka í kerfinu af þeim stjórnkerfislegu ástæðum að það er skörun í verkefnum ráðuneytanna. Þetta er eitthvað sem þarf að fara mjög vandlega yfir. Ég held að þessi tillaga sé í raun og veru býsna róttæk og ef henni fylgir endurskoðun og yfirferð af því tagi sem til er stofnað getur hún skilað miklu. Ég tel fulla ástæðu til að leggja áherslu á að það verði skoðað að Ríkisendurskoðun fari yfir málefni Stjórnarráðsins í heild og a.m.k. er það okkar hugmynd að ef þessi þingsályktunartillaga verður samþykkt sé í henni fólgin stefnumörkun. Líka er verið að benda á að það þurfi endurskoðunar við sem ekki er lagt til að verði breytingar á þarna.

Ég vil nefna að það þarf auðvitað að skoða fleiri ráðuneyti með það fyrir augum að komið verði á betri verkaskiptingu. Ég hef ekki tíma til að fara nákvæmlega yfir það en mér finnst t.d. að samgönguráðuneytið sé kannski orðið svolítið lítið í samanburði við önnur ráðuneyti, verkefni þess smá og þess vegna ætti að skoða það alveg sérstaklega í samhengi við þá endurskoðun sem þyrfti að fylgja þessari þingsályktunartillögu ef hún verður samþykkt hér sem ég hef góða von um að verði gert vegna þeirra undirtekta sem hafa nú þegar komið fram.