131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Atvinnuvegaráðuneyti.

15. mál
[18:19]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og þingflokki Samfylkingarinnar fyrir að hafa lagt fram þessa þingsályktunartillögu á hinu háa Alþingi. Ég tel að hér sé verið að hreyfa við máli sem við ættum í rauninni alltaf að vera með í stöðugri endurskoðun, þ.e. hvernig við högum stjórnskipan, tilhögun varðandi ráðuneyti og verkaskiptingu á milli þeirra.

Hér hafa verið fluttar ágætar ræður fram að þessu og mörg góð rök tínd fram. Ég ætla svo sem ekki að fara að endurtaka þau. Ég get tekið undir allt sem fram hefur komið til þessa. Það er fyllilega kominn tími til þess eins og ég nefndi áðan að fara yfir þessi ráðuneyti og sameina þau í eitt atvinnuvegaráðuneyti. Ég tel að það yrði mjög til bóta og þarna mundu þá um leið gefast tækifæri til að spara og hagræða í ríkisrekstrinum. Við þurfum líka að skoða þær stofnanir sem heyra undir þessi ráðuneyti í dag, hvort það sé ekki einmitt ástæða til að sameina stofnanir. Hér erum við m.a. að tala um stofnanir innan sjávarútvegs og líka innan landbúnaðargeirans, einkum og sér í lagi innan þeirra tveggja greina. Einnig væri vert að skoða hvort ekki væri ástæða til að flytja stofnanir frá þeim ráðuneytum sem þær heyra undir í dag til annarra ráðuneyta, þá sérstaklega kannski umhverfisráðuneytisins. Hér er ég þá að tala um stofnanir sem í dag heyra undir landbúnaðarráðuneytið, t.d. Landgræðsluna og Skógræktina, en einnig Hafrannsóknastofnun. Ég hef oft verið hugsi yfir þeirri stofnun á undanförnum missirum og hallast æ meira að því að rétt sé að henni verði komið fyrir í framtíðinni undir umhverfisráðuneyti. Hafró ætti að fara undir umhverfisráðuneytið.

Hér er talað um að undirbúningi að stofnun hins nýja ráðuneytis verði lokið fyrir árslok 2006. Það er kannski frekar mikil bjartsýni því að ég hef einhvern veginn lúmskan grun um að þó að hv. þm. Ásta Möller í Sjálfstæðisflokki taki undir þetta og telji ekki einu sinni nógu langt gengið sé kannski ekki voðalega mikill vilji hjá núverandi ríkisstjórn til að fara í þessa vinnu. Þetta er hluti af valdaskiptingu þeirra tveggja flokka sem eru í ríkisstjórninni í dag, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og valdakerfi þeirra, hvernig þeir hafa skipt ráðuneytunum á milli sín.

Það vekur athygli mína að framsóknarmenn eru gersamlega fjarverandi við þessa umræðu nú síðdegis. Maður hlýtur að spyrja sig hvort það sé með ráðum gert því það er alveg ljóst að ef þessar breytingar færu í gegn yrði sennilega tekinn spónn úr aski þeirra þar sem þeir hafa í dag landbúnaðarráðuneytið og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið.

Það eru einnig vonbrigði að enginn þeirra ráðherra sem þessi ráðuneyti heyra undir skuli sjá sér fært að vera við umræðuna. Ég veit reyndar að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra er stödd erlendis þannig að hún er löglega afsökuð en víst hefði verið gaman að sjá hér bæði hæstv. sjávarútvegsráðherra og hæstv. landbúnaðarráðherra og fá að heyra sjónarmið þeirra og skoðanir á þessum breytingum. Eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, eru þetta hlutir sem okkur ber skylda til að hafa í stöðugri endurskoðun og því fagna ég þingsályktunartillögunni.

Ég vænti þess, þó að ég sé reyndar ekki mjög bjartsýnn á það, að tillagan komist án mikilla skakkafalla í gegnum þingnefnd og verði afgreidd á þessu þingi þannig að menn fari virkilega að einhenda sér í það að vinna að þessum breytingum sem ég tel að mörgu leyti löngu tímabærar og mjög svo nauðsynlegar.