131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Atvinnuvegaráðuneyti.

15. mál
[18:38]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í upphafi andsvars míns undirstrika að ég tel nauðsynlegt að menn séu með stjórnsýsluna í stöðugri endurskoðun eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom inn á. Áherslur breytast eðlilega í síbreytilegu samfélagi.

Það sem ég vildi koma aðeins inn á er hugtakið atvinnuvegaráðuneyti. Það slær mig að menn séu að fara nokkra áratugi aftur í tímann í hugmyndafræði sem getur ekki verið ætlun hv. þingmanna. Með því er verið að gefa í skyn að sumt sé atvinna og annað ekki, þeir sem vinni að landbúnaði, sjávarútvegi og ferðamálum stundi atvinnu en þeir sem vinni að menntun, rannsóknum eða þeir sem vinna í ýmsum verslunar- og þjónustustörfum séu ekki að sinna atvinnu. Ég er ekki alveg sáttur við þessa nálgun, ég segi það eins og er.

Fyrir mér er allt atvinna. Ég velti fyrir mér hvort hv. flutningsmenn hafi hugleitt þessa orðanotkun og þessa skilgreiningu. Ég set spurningarmerki við það að sum verkefni séu kölluð atvinna og þá hljóti hin verkefnin að vera ekki atvinna. Eða hvernig mundi hv. þm. Össur Skarphéðinsson skýra þetta út fyrir mér?