131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Atvinnuvegaráðuneyti.

15. mál
[18:41]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er þakklátur fyrir þann stuðning sem skein auðvitað í gegnum orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar við mál okkar. Ég veit að sem framfarasinnuð stjórnmálahreyfing styður Vinstri hreyfingin – grænt framboð umbótamál af þessu tagi. Það er mér líka gleðiefni að hv. þm. sem hefur sérfræðiþekkingu á landbúnaði skuli í reynd vera jákvæður gagnvart hugmyndinni. Ég vil bara undirstrika að máli mínu var með engu móti beint gegn þeirri ástkæru atvinnugrein sem hann hefur varið drjúgum parti af lífi sínu til að efla og hlúa að.

Hv. þm. spyr hvort við sem flytjum þetta mál höfum velt því fyrir okkur að með nafngiftinni sem tengd er hinu nýja ráðuneyti kunni menn óafvitandi að gera lítið úr þeim sem starfa við annars konar atvinnu og þjónustu. Við veltum þessu fyrir okkur, töluvert, og komumst að þeirri niðurstöðu að alveg eins og framtíðin er falleg er fortíðin líka stundum í hillingum ákveðins bjarma og einmitt vegna þess að þetta nafn er gamalkunnugt, á sér ákveðna sögu, ákváðum við að nota það, atvinnuvegaráðuneyti, kannski vegna þess að það hefur í áranna rás verið brúkað um þá breytingu sem þarna er lögð til.

Hins vegar er nafngiftin sem slík okkur ekki föst í hendi og vissulega mundum við vilja fá tillögu frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni um það hvað ætti að kalla slíkt ráðuneyti. Ég veit að það yrði til að greiða fyrir samþykkt málsins ef hann af snilld sinni gæti lagt til eitthvert hagyrði um það fína ráðuneyti sem við erum orðnir sammála um að stofna, ég og hv. þingmaður.