131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Atvinnuvegaráðuneyti.

15. mál
[18:43]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka öll mildileg orð í minn garð. Ég er sammála þeirri áherslu sem hv. þm., flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu, eru með gagnvart ferðaþjónustunni. Ég vil nefna það sérstaklega. Ég tel að staða hennar innan stjórnsýslunnar sé engan veginn nógu sterk. Hún er líklega komin í 2. sæti sem mikilvægasta útflutningsgrein þjóðarinnar, gjaldeyrisskapandi atvinnugrein. Þetta er líka sú atvinnugrein sem með beinum eða óbeinum hætti sér fyrir flestum störfum hér á landi og áfram er hún hornreka eða fær a.m.k. ekki þann sess í stjórnsýslunni sem mér finnst að henni beri. Mér finnst hún alltaf vera afgangsstærð í umræðunni þegar verið er að ræða um forgangsröðun áherslna af hálfu ríkisins og reyndar líka á vissan hátt þingsins. Ég er sammála því að veg hennar þurfi að auka.

Hitt svo, hvað ráðuneytin heita — ég get alveg lagt til að þetta heiti bara allt landbúnaðarráðuneyti og við setjum umhverfisráðuneytið undir landbúnaðarráðuneytið. Að mínu viti ætti það langbest heima þar, undir góðri stjórnsýslu og góðum landbúnaðarráðherra. Undir góðri ríkisstjórn ættu umhverfismálin langbest heima undir landbúnaðarráðuneytinu og það mætti alveg skoða það.