131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Skráning nafna í þjóðskrá.

17. mál
[18:55]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Félagi minn, hv. þm. Sigurjón Þórðarson, hefur mælt fyrir tveimur þingsályktunartillögum í kvöld, annars vegar um bætta skráningu nafna í þjóðskrá og hins vegar um að fólki verði leyft að skrá kennitölu með öðrum hætti en gert er í dag. Hvort tveggja tel ég vera sjálfsagt réttlætismál og vil lýsa því yfir að þó hann sé eini flutningsmaður þessara tillagna stendur allur þingflokkur Frjálslynda flokksins að baki honum í þessum málum.

Varðandi þetta með kennitölurnar er það ósköp eðlileg og sjálfsögð krafa að fólk geti fengið að breyta þeim, að það þurfi ekki í hvert einasta sinn sem það segir kennitölu sína að þylja upp fæðingardag, mánuð, ár og eitthvert númer. Ef fólki finnst það á einhvern hátt vera bagalegt er alveg sjálfsagt að það fái einhver önnur númer í staðinn. Kerfið er úrelt eins og það er í dag og minnir svolítið á gamla bílnúmerakerfið þegar bílar voru skráðir á einstök sveitarfélög, ef svo má segja, hvert sveitarfélag eða svæði hafði eigin einkennisbókstaf. Fólk keyrði um og maður gat séð langar leiðir hvaðan fólk var að koma, hvar það átti heima. Þetta var að vísu svolítið skemmtilegt þegar maður var lítill og var að velta því fyrir sér hvaðan bílarnir væru sem maður mætti eða var á eftir á þjóðvegunum eða hvaða ökumenn voru að aka í Reykjavík. Það var talað um að landsbyggðarökumenn væru miklir fantar, kynnu ekki að keyra og menn gátu bent á þá og sagt: Þarna sjáið þið. Þarna sjáið þið að þessi er utan af landi.

Í dag er þetta ekki lengur svona sem betur fer. Bílnúmerin eru skráð með frekar tilviljunarkenndum hætti og það ætti að sjálfsögðu að gilda hið sama um kennitölurnar. Ef fólk vill hafa aðra tölu á það að sjálfsögðu að fá það.

Varðandi nöfnin, að fólk geti fengið að skrá full nöfn í þjóðskrá er það sjálfsagt mannréttindamál og svo augljóst að furðu sætir að ekki skuli hafa verið bætt úr báðum þessum málum fyrir löngu.