131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Veðurþjónusta.

183. mál
[13:43]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég tel við hæfi að byrja á að vekja athygli þingheims á því að hér er á ferðinni fyrsta mál nýs hæstv. umhverfisráðherra og þó að það sé gamalt, frá því í fyrra, nýtur það auðvitað þeirra hveitibrauðsdaga sem hinn nýi hæstv. umhverfisráðherra gengur nú í gegnum. Í Ameríku, þaðan sem ýmislegt er haft í pólitíkinni, held ég að hveitibrauðsdagar séu skilgreindir sem 100 dagar og mér reiknast svo til að hveitibrauðsdagar hæstv. umhverfisráðherra muni þá standa nokkurn veginn fram á aðfangadag. Ég veit eiginlega ekki hvað við í umhverfisnefndinni eigum að gera á meðan.

Það mál sem hér um ræðir fellur að mínu viti vel inn í þennan hveitibrauðsramma. Það kom fram í fyrra, það var vel unnið sem ekki öll mál voru frá ráðuneytinu þá. Við samfylkingarmenn erum sammála meginpartinum í þessu frumvarpi, að aðskilja annars vegar opinbera grunnþjónustu sem sjálfsagt er að Veðurstofan veiti — í því felst m.a. að viðhalda sínu veðurathugunarkerfi og vakta þann þátt í náttúrufarinu og varðveita gögnin til frambúðar — en hafa síðan sér þá þætti í starfi Veðurstofunnar sem teljast vera samkeppnisþættir, og hafa á síðustu árum valdið nokkrum óróa og vanda, þannig að það sé ljóst hvernig með þá er farið og hvaða fjármál standa þar að baki og að öðrum er heimilt að keppa við Veðurstofuna í þeim efnum. Í framtíðinni hygg ég að til greina komi, ef þróunin er í þá átt, að Veðurstofan hætti að sinna þeim þáttum og láti þá öðrum eftir sem betur eru til þess fallnir, en það er ekki á dagskrá núna heldur fyrst og fremst þetta. Við eigum auðvitað að gera það víðar, bæði á verksviði umhverfisráðuneytisins og annars staðar, að aðskilja grunnþjónustuna og síðan samkeppnisþætti.

Því miður er hæstv. samgönguráðherra ekki við þessa umræðu en hann mætti vel taka sér til fyrirmyndar það sem núverandi hæstv. umhverfisráðherra og sá síðasti, sem bar það fyrst fram, þá hæstv. nú hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, hafa tekið sér fyrir hendur að gera hér. Ég tel að það sé mjög þarft. Þar sem fram voru komnar í fyrra ítarlegar umsagnir um málið og allar heldur jákvæðar að mig minnir tel ég að það geti farið fljótt í gegnum umhverfisnefnd og það nýtur þar a.m.k. í öllum meginatriðum stuðnings okkar samfylkingarmanna.