131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Veðurþjónusta.

183. mál
[13:46]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er til umfjöllunar frumvarp til laga um veðurþjónustu. Ég get tekið undir það með fyrri ræðumanni, hv. þm. Merði Árnasyni, að það er óhætt að óska hæstv. umhverfisráðherra til hamingju með þetta fyrsta mál sem hún fylgir hér úr hlaði í sínu nýja embætti.

Sömuleiðis get ég tekið undir það að málið virðist vel unnið. Það er vel að því staðið í alla staði. Þannig var staðið að samningu frumvarpsins að auk aðstoðarmanns umhverfisráðherra og lögfræðings í umhverfisráðuneytinu áttu Siglingastofnun og Samtök atvinnulífsins auk veðurstofustjóra aðild að nefndinni sem samdi frumvarpið. Frumvarpið er ekki flókið eða margslungið en gefur mjög glögga mynd af því hlutverki sem stjórnvöld ætlast til að Veðurstofan komi til með að fullnægja og fylla út í.

Þær greinar sem umsagnaraðilar sem rituðu umhverfisnefnd bréf í fyrra gerðu einhverjar athugasemdir við eru þær sem varða sérþjónustu, þjónustusamninga og aðgang að gögnum. Það vekur óneitanlega athygli að þeir sem gera yfir höfuð athugasemdir við frumvarpið eru aðilar sem einhverra hluta vegna hafa ákveðið að koma út á markaðinn og ætla sér að keppa við Veðurstofuna að einhverju leyti um sölu á þjónustu. Þetta eru fyrirtæki eins og Veður ehf., Íslenska útvarpsfélagið og síðan fyrirtæki sem ég man ekki hvað heitir. Það sést ekki á þessari umsögn. Jú, það heitir Halo, ef ég man rétt. Svo gerir Landsvirkjun nokkrar athugasemdir. En að öðru leyti eru þeir fjölmörgu aðilar sem fengu málið til umsagnar nokkuð sáttir við þetta. Engar efnislegar athugasemdir voru gerðar af okkar stærstu stofnunum sem þurfa að reiða sig á þjónustu Veðurstofunnar og það gefur manni til kynna að nokkuð góð sátt sé um þetta mál og það er auðvitað afar mikilvægt þegar mál af þessu tagi eru lögð fram á hinu háa Alþingi og þegar endurskoða þarf í grunninn stofnun á borð við Veðurstofu Íslands.

Þannig háttar þó til, eins og við vitum sem höfum starfað um nokkurt skeið í umhverfisnefnd, að fjármál stofnunarinnar hefur borið á góma hjá okkur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ég tel alveg eðlilegt að geta þess hér við þetta tækifæri þegar verið er að efna til uppstokkunar og tiltektar í málaflokknum að eðlilegt sé að skoða á sama tíma hvernig fjármál stofnunarinnar standa. Þau hafa ekki alltaf staðið vel. Veðurstofustjóri hefur komið fyrir umhverfisnefnd oftar en einu sinni og borið sig upp við nefndina varðandi ákveðna þætti fjármála stofnunarinnar. Ég tel því eðlilegt að umhverfisnefnd taki það til skoðunar á sama tíma og við skoðum þetta mál í grunninn að það verði tryggt að afkoma stofnunarinnar verði slík að henni sé gert kleift að standa undir þeim skyldum sem með þessu nýja frumvarpi eru lagðar henni á herðar.

Að svo mæltu geri ég ráð fyrir að vinnan við málið verði frjó og þurfi ekki að taka langan tíma í nefndinni og geri ráð fyrir að gestir komi fyrir nefndina sem geti þá gefið gleggri mynd af því sem skýrir sig ekki sjálft í greinargerð með frumvarpinu.