131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Náttúruvernd.

184. mál
[14:04]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér er um brýnt mál að ræða, þ.e. efnistaka á eldri námum.

Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort til standi að taka á heildarendurskoðun náttúruverndarlaganna. Það er orðið brýnt að taka á 17. gr., hvað varðar akstur utan vega og skilgreina vegi þannig að hægt verði að taka á þessum málaflokki og öðru sem tengist beint því máli sem við ræðum núna, þ.e. stjórnsýsluúrræði Umhverfisstofnunar. Þau eru fátækleg.

Í 73. gr. laganna segir að nota skuli dagsektir en í 76. gr. er fjallað um refsiábyrgð fyrir dómstólum. Ég tel brýnt að fara yfir það að auðvelda Umhverfisstofnun að taka á brotum með stjórnsýsluákvörðun þannig að þessi mál geti gengið hratt og vel fyrir sig.

Segjum að einhver gangi ekki frá námu eins og honum er skylt að gera samkvæmt lögum. Þá er hægt að ákvarða honum dagsektir eins og lögin eru, samkvæmt 73. gr. Samkvæmt þeim má knýja menn til framkvæmda, sem þeim er skylt að gera. En setjum svo að sá sem skyldaður er til að ganga frá námu dragi lappirnar. Hvað gerist þá? Þá gerist ekki neitt vegna þess að í lögum um aðför segir í 71. gr. að þegar viðkomandi hefur loksins komið sér að verki, þ.e. að ganga frá námunni, þá falli dagsektir niður. Dagsektirnar eru því ónýtt ákvæði og þessu þarf nýr hæstv. umhverfisráðherra að breyta.

Það væri fróðlegt að fá svar við þessum tveimur spurningum, annars vegar því hvort ekki sé rétt að fara yfir stjórnsýsluúrræði til að fá lögin til að virka og einnig til að gæta að jafnræði meðal þeirra verktaka sem annars vegar starfrækja námur og ganga vel frá námum og þeirra sem ganga síður frá námum.

Ég tel brýnt að einhver framför verði í málaflokknum. Þetta mál þolir enga bið. Fleiri mál er varða umhverfismál búa við veik stjórnsýsluúrræði og mundi auðvelda allan framgang málaflokksins ef tekið yrði á þessu atriði.