131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

192. mál
[14:30]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég tek undir að það má endurskoða hollustuháttaráð og skipan þess en ég er svo sem ekki sannfærður um að sú skipan sem nú er tekin upp sé sú besta. Áður en lengra er haldið finnst mér rétt að gera smávægilega athugasemd við greinargerð með frumvarpinu en í henni kemur fram að kostnaður við rekstur heilbrigðis- og mengunareftirlits á vegum sveitarfélaganna sé að mestu leyti borinn uppi af atvinnulífinu, eða sem nemur ¾ hlutum kostnaðar. Þá finnst mér rétt að taka fram að eftirlitsgjöldin eru venjulega 60–70% af tekjum heilbrigðiseftirlitanna og 30–40% eru bein framlög sveitarfélaganna. Þar af greiða opinber fyrirtæki af þessum 60–70% tæpan helming, eða um 40%. Það eru þá eftirlitsgjöld með vatnsveitum sem eru talsverð, eftirlitsgjöld með sundlaugum, leikskólum, skólum, sjúkrahúsum og svona má lengi telja. Samtök atvinnulífsins standa ekki alfarið undir ¾ hlutum kostnaðarins. Mér finnst rétt að taka þetta fram í umræðunni áður en lengra er haldið.

Það sem ég átta mig ekki alveg á varðandi tilgang þessarar samstarfsnefndar er hlutverk hennar. Það væri ágætt að fá nánar að vita um það. Fram kemur að það eigi að fjalla um þætti sem varða atvinnustarfsemi, svo sem „lagabreytingar og stefnumarkandi reglugerðir, samþykktir og gjaldskrár“. Það væri gott að fá nánar að vita hvað átt er við. Ég tel í sjálfu sér að samstarf atvinnulífsins og þeirra sem fara með eftirlit sé mjög mikilvægt og það sé mjög góð reynsla af fulltrúum atvinnulífsins í heilbrigðisnefndum yfirleitt. Þess vegna mætti skoða hvort þessi samstarfsnefnd ætti þá ekki að vera jafnvel samstarfsnefnd þeirra sem fara með eftirlitið og atvinnurekenda. Ég varpa fram þessari hugmynd.

Eins og áður segir væri ágætt að fá nánar að vita um hlutverk þessarar nýju samstarfsnefndar.