131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

192. mál
[14:36]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Eins og ráðið er skipað í dag eru í því níu menn sem koma úr mjög ólíkum áttum og eiga mjög ólíka aðkomu að málum. Það er fjallað nokkuð um þetta í greinargerðinni, t.d. það að forstjóri Umhverfisstofnunar sé lögskipaður inn í hollustuháttaráðið sem auðvitað gefur augaleið að er ekki heppilegt. Í raun og veru er verið að einfalda hlutina, ekki síst í ljósi þeirrar reynslu sem hefur fengist af störfum ráðsins. Þess vegna er verið að breyta hlutverkinu og samsetningunni þannig að um verði að ræða lögbundið samráðsferli sem snýr að þessum þremur aðilum, þ.e. umhverfisráðherra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins, og þá er gert ráð fyrir að hin nýja samráðsnefnd fjalli áfram um stefnumarkandi þætti sem falla undir lögin um hollustuhætti og mengunarvarnir og varða atvinnustarfsemi.

Því til viðbótar er líka verið að leggja til að nefndin geti haft frumkvæði að því að taka upp slík mál við ráðherra og sveitarfélögin en hollustuháttaráði er ekki ætlað slíkt hlutverk samkvæmt núgildandi lögum. Ég tel að hér sé um breytingu að ræða sem eigi að vera til bóta.