131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[14:54]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér finnst nú heldur ósanngjarnt hjá hv. þm. að vitna til ummæla sem féllu í hita umræðunnar um þriðju kynslóð farsíma árið 2000. (Gripið fram í.) Mikið vatn er runnið til sjávar frá þeim tíma og miklar breytingar hafa orðið sem ég rakti einmitt í ræðu minni. Þessi bóla sem átti að leysa allt sem var í mikilli uppsveiflu árið 2000 leiddi til þess að menn sáu fyrir sér mikla tekjuöflunarmöguleika fyrir ríkissjóði Evrópuríkjanna og víðar með því að bjóða upp, láta hæstbjóðendur kaupa leyfin. Reynslan af þessu varð alveg hörmuleg. Það er skemmst frá því að segja að ég tel að við höfum mikla reynslu í útboðum, þess vegna förum við þessa leið í fyrsta lagi.

Í annan stað er algerlega fráleitt að tala um hugsanlegar geðþóttaákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar við úthlutun á slíkum leyfum, því nokkuð vel er girt í kringum þetta með löggjöfinni og þeim reglum sem settar eru og verða gegnsæjar og öllum ljósar fyrir fram.

Að síðustu tel ég að með þeirri aðferð sem við veljum hér í frumvarpinu — það er fróðlegt að vita að samfylkingarþingmenn eru á móti henni — viljum við tryggja útbreiðslu. Við viljum ekki úthluta leyfum á forsendum uppboðsleiðar þar sem sá fær sem vill borga mest og er líklegastur til þess að draga allra mest úr útbreiðslunni og uppbyggingarhraðanum vegna þess hversu kostnaðurinn er mikill við leyfisveitinguna.

Fegurðarsamkeppnin er því í þágu mikillar útbreiðslu og mikillar þjónustu, sérstaklega út um land.