131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[14:59]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel það ágætisleið að afsláttur komi inn ef menn byggi upp þjónustu umfram 60% sem er lágmarksútbreiðsla.

Það sem mig langar að spyrja hæstv. samgönguráðherra er hvers vegna miðað er við 60%. Mér finnst það vera heldur lágt. Nú höfum við ADSL-kerfið og allir eru sammála um, og ég veit ekki betur en hæstv. samgönguráðherra sé sammála því einnig, að það kerfi þurfi að byggja enn frekar upp. En þarna erum við með 60%. Ef ég skil 4. gr. rétt mun koma fullur afsláttur þegar það er búið að ná 75% útbreiðslu. Er það ekki heldur lágt miðað við hve mikil óánægja er með t.d. ADSL-kerfið?

Nú er vitað mál að dýrast er að byggja upp síðustu 15%. Er ekki einmitt skynsamlegt að láta þá afsláttinn fara að tikka?

Ég er sammála þeirri aðferð að það sé afsláttur. Ég held að það sé mjög mikilvægt. En hvort við ættum þá ekki að láta afsláttinn fara að byrja að koma þegar sá sem ætlar að starfrækja kerfið sé kominn með það upp fyrir 80%?