131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[15:05]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins nokkrar spurningar til hæstv. samgönguráðherra þegar hann hefur flutt þetta mál hér enn einu sinni. Vonandi klárast það nú.

Það er annars vegar af því hann nefndi hér í stuttu andsvari áðan NMT-kerfið, þá langar mig að spyrja hann út í hvað við getum búið við NMT-kerfið lengi, hvenær mun því verða lokað og detta út? Það er mikilvægt öryggistæki á þjóðvegum. Og vegna þess að ráðherra sagði líka að það yrði fyrst og fremst í þéttbýli og ólíklegt væri að það sem við erum að tala um nú, þ.e. þriðja kynslóð farsíma, mundi ná á ýmsa dreifða staði þá er rétt að hafa í huga og ítreka það að enn þá vantar mikið á sendafjölda til þess að GSM-síminn, vegna þess hve hann er mikið öryggistæki, nýtist á ýmsum ferðaleiðum fólks hér á landi Ég kem kannski nánar að því í ræðu á eftir.

Það er rétt sem hér kom fram og ég vil taka undir það sem hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni gat um áðan að það er mjög dýrt að ná í síðustu prósentin til að ná almennri útbreiðslu. Þess vegna vil ég ítreka spurninguna og spyr því hæstv. ráðherra hvort ekki hafi komið til tals þegar þetta frumvarp var samið að setja upp meiri afslátt og hreinlega jafnvel gjaldfrelsi gagnvart ýmsum minni stöðum, þó svo að ég geri mér grein fyrir að við erum að tala mjög langt fram í tímann gagnvart þriðju kynslóð farsíma á ýmsum stöðum.

Ég tek þetta sem dæmi vegna þess sem við höfum áður rætt um hér, virðulegi forseti, þ.e. útbreiðslu ADSL-kerfisins. Með 92% útbreiðslu eins og nú er í ADSL eru t.d. ekki nema fjórir staðir á Vestfjörðum sem njóta þess í kjördæmi hæstv. ráðherra. Áður höfum við rætt um ýmsa staði í Norðausturkjördæmi og staði sem hafa farið sjálfir út í uppbyggingu á sínum kerfum til þess að nýta ADSL-þjónustu, sem ég tel algjörlega óviðunandi.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka hér í fyrra andsvari mínu þá spurningu til hæstv. ráðherra hvort ekki hafi verið talað um að hafa stighækkandi afslátt vegna þess.