131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Forræði yfir rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

16. mál
[16:24]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Frú forseti. Ég vil fá að hefja mál mitt á því að þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og þingflokki Vinstri grænna fyrir að hafa lagt fram þessa þingsályktunartillögu á hinu háa Alþingi. Ég verð að viðurkenna að ég vissi hreinlega ekki af því fyrr en ég fór að skoða þetta mál að það væri með þeim hætti sem hér var rakið í framsöguræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur og satt best að segja rak mann í rogastans.

Þetta á jú allt upphaf sitt í því að ríkisstjórnin samþykkir árið 1997 framkvæmdaáætlun um umhverfismál. Þar er sem sagt ákveðið að iðnaðarráðherra skuli í raun og veru hafa forgang í þessu máli, ekki umhverfisráðherra eins og manni hefði þótt mjög eðlilegt og sjálfsagt. En það er sem sagt iðnaðarráðherra sem er látinn leiða þetta starf, þ.e. leggja mat á og flokka ýmsa virkjanakosti bæði vatnsafls og hita, háhita, jarðhita, skoða hluti eins og orkugetu, hagkvæmni og annað þjóðhagslegt gildi — en svo á líka að skilgreina, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúrumenningarminjar og einnig á hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði. Maður fær strax á tilfinninguna að þarna sé gildi auðlindanna í raun og veru sett í annað sæti, þ.e. vatnsafls, fallvatna og síðan jarðvarma, háhitasvæða, að gildi þessara náttúruauðæfa með tilliti til náttúruverndar sé í öðru sæti.

Það er sem sagt iðnaðarráðuneytið sem fær að ráða ferðinni og það kom strax í huga manns svona hálfspaugileg samlíking; þetta væri svona svipað og að láta rónana stjórna Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. En að öllu gamni slepptu er þetta alveg háalvarlegt mál.

Mér finnst alveg sjálfsagt að þessu sé breytt og því kippt í liðinn og þetta starf verði fært undir umhverfisráðuneytið því að þetta er jú umhverfismál fyrst og fremst.

Þetta gerir það líka að verkum að maður sannfærist um að einnig sé tími til kominn að fara að skoða þessi ráðuneyti sem hafa með nýtingu náttúruauðlinda að gera, landbúnaðarráðuneytið, sjávarútvegsráðuneytið og iðnaðarráðuneytið, og sameina þau undir eitt ráðuneyti, þ.e. atvinnuvegaráðuneyti. Og jafnframt verði látin fara fram heildarendurskoðun á öllum stofnunum sem heyra undir þessi ráðuneyti og síðan hugleitt mjög alvarlega hvaða stofnanir ættu í raun frekar heima undir umhverfisráðuneytinu og veita umhverfisráðuneytinu þá jafnframt sjálfkrafa meira vægi í stjórnsýslu okkar. Hér er ég náttúrlega að tala um þetta tiltekna mál sem við erum að ræða núna, hæstv. forseti, en einnig koma í hugann stofnanir eins og t.d. Hafrannsóknastofnun, Landgræðslan, ég tel að báðar þessar stofnanir ættu miklu frekar heima undir umhverfisráðuneytinu. Ég var frekar skeptískur á þá hugmynd til að byrja með en eftir því sem tíminn líður sé ég æ betur og sannfærist um að þessar stofnanir eiga ekki að vera undir sérfagráðuneytum þar sem hagsmunir þeirra sem vilja nýta auðlindirnar stangast á við hagsmuni hinna sem vilja stjórna nýtingu þeirra og líka reyna að vernda þær, að svona stofnanir eigi miklu frekar heima undir umhverfisráðuneytinu í framtíðinni.