131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Forræði yfir rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

16. mál
[16:38]

Örlygur Hnefill Jónsson (Sf):

Herra forseti. Ég tel að flestir geti verið sammála því að tvenns lags sjónarmið eru uppi þegar hugað er að virkjanakostum.

Annars vegar er orkunýtingin og hún er til að byggja upp atvinnu og styrkja byggðir, afla gjaldeyristekna og tryggja velferðarkerfi okkar, hið sameiginlega velferðarkerfi okkar sem veitir ekki af því að eflist. Hinn kosturinn er umhverfismálin og víst eru þeir til sem leggjast gegn virkjanakostum.

Í minni heimabyggð háttar þannig til að þar er mikil orka ónýtt. Hvers vegna vill fólkið þar að hugað verði að virkjunum og orkunýtingu? Það er út af því að þær byggðir hafa orðið að ganga í gegnum það að kvótinn, fiskurinn í sjónum, hefur flust frá byggðunum. Þær veikjast þess vegna. Einnig veikjast byggðirnar þar sem landbúnaðurinn er á undanhaldi, það er öllum ljóst. Þessar byggðir fá lítið sem ekkert inn á sín svæði í formi opinberra starfa. Þess vegna hafa menn víða áhyggjur um hinar dreifðu byggðir. Menn sjá það sem kost í að efla byggð og styrkja eignir sínar. Ég hef bent á að vítt og breitt um landið hafa eignir fólks, ævisparnaðurinn sem bundinn er í fjórum veggjum heimilisins, orðið nánast ekki að neinu út af breytingu á atvinnuháttum. Þess vegna tel ég að fólk sé fylgjandi því að nýta orku til að treysta byggðir.

Auðvitað verður alltaf að fara varlega. Ég lít þannig á að tilgangur tillögunnar sem hér er lögð fram af hv. flutningsmönnum sé að tryggja að svo verði. En mér fyndist þó helst til langt gengið ef málaflokkurinn færi allur undir umhverfisráðuneytið. Hv. þm. Katrín Fjeldsted benti á að kannski mætti skipta þessum málaflokki milli ráðuneyta. En ég veit að hugsunin í tillögunni er góð. Hún er a.m.k. umræðugrundvöllur.

Ég minni enn og aftur á að landsbyggðin þarf virkilega á því að halda að nýir atvinnukostir séu byggðir upp. Mér er hugsað til heimabyggðar minnar sem er orkupottur, bæði í formi fallvatna og ekki síður jarðhita. Þar er mestur jarðhiti fólginn í jörðu á Íslandi utan Reykjanesskaga. Það eru þau tvö svæði sem bera af.

Ég hef líka bent á orkukostinn sjóðandi lághita. Í sjóðandi lághita er tífalt meiri orka falin í iðrum Íslands en á háhitasvæðunum. Það hefur ekkert verið hugað að því að virkja þann kost. Honum fylgja ekki uppistöðulón. Það er alveg ljóst að landsbyggðin kallar á að þar sé byggt upp öflugt atvinnulíf. Því má aldrei gleyma.