131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Vegalög.

19. mál
[17:09]

Örlygur Hnefill Jónsson (Sf):

Herra forseti. Það frumvarp sem hér er til umræðu og hv. 1. flutningsmaður Þuríður Backman hefur talað fyrir víkur að öryggi í umferðarmálum sem er þjóðþrifamál og ég vænti að allir geti verið sammála um.

Um 1. gr. frumvarpsins, hvort almennt sé nauðsyn á að setja svona brýningu inn í vegalög, vil ég kannski ekki margt segja. Ég held að það mundi svo sem ekki skemma neitt fyrir lögunum en ég vil trúa því og tel að Vegagerðin hafi staðið sig um flesta hluti vel og hljóti að gæta mjög að öryggismálum við vegalagningu hverju sinni. Auðvitað er sjálfsagt að taka tillit til svona áréttingar en ég vil um flest hæla samgönguyfirvöldum fyrir þær samgöngubætur sem unnar hafa verið. Ég hef gert það áður úr þessum stól. Varðandi landsbyggðarmálin finnst mér núverandi ríkisstjórn ekki síst hafa staðið sig vel í samgöngumálum. Ég vil segja að þar hefur hún staðið sig hvað best því að þótt betur megi gera og menn séu kannski sjaldnast ánægðir — við vitum um staði sem þurfa virkilega endurbætur — hefur maður ár frá ári séð að verið er að bæta samgöngukerfið um hinar dreifðu byggðir. Það er vel og fyrir það á að hrósa samgönguyfirvöldum.

Eins og hv. þm. Þuríður Backman vék að og kemur fram í greinargerð flutningsmanna kemur margt þar fram sem lýsir jákvæðu viðhorfi til þess sem Vegagerðin er að gera. Maður finnur líka á eigin skinni hvað það er orðið auðveldara á allan hátt að ferðast um landið. Það eru ekkert voðalega mörg ár síðan að ef maður átti leið úr Reykjavík og norður í land, eins og minni för er oft háttað, hringdi maður jafnvel á bæ eins og Kot í Norðurárdal til að spyrja hvernig veður væri. Það er nóg að fara 10–15 ár aftur í tímann. Nú er hægt að fara inn á internet, Textavarp og víðar til að fá upplýsingar um þetta. Þetta er til fyrirmyndar og ég tel að Vegagerðin sé mjög snögg að tileinka sér nýjustu tækni í þessu. Þetta er ekki það dýrasta í öryggismálum en eykur gríðarlega öryggi vegfarenda. Síðast í dag og í gær vorum við að glíma við slæmt veður vítt um land og þá er umferðaröryggi í hættu sett en það er gott fyrir fólk að slá þá af ferð sína af því að það getur séð að víða eru hættur.

Mér finnst andi hins ágæta frumvarps sem hér er lagt fram allur hníga í þá átt að auka umferðaröryggi. Ég hef áður sagt að um það getum við verið sammála. Auðvitað hefur maður verulegar áhyggjur af því ástandi sem mun skapast innan eins og hálfs mánaðar þegar allir strandflutningar fara inn á þjóðvegakerfið. Ýmislegt má bæta og auðvitað þarf að láta hina fjölfarnari vegi sitja fyrir. Það má fækka beygjum á leiðinni Akureyri – Reykjavík. Það eykur umferðaröryggi og styttir leiðir.

Í umræðu um strandsiglingar nýverið benti ég á að líka má taka af erfiða þröskulda á veginum. Ég nefni Bakkaselsbrekkuna og Öxnadalsheiði. Ég held að það sé hægt þar, til þess að gera á ódýran hátt, með því að gera stutt veggöng undir hábungu heiðarinnar. Þannig má losna við verstu brekkuna á leiðinni Akureyri – Reykjavík og jafnframt þann stað þar sem hábunga heiðarinnar er, þar sem veðravítin verða verst og þar sem mest úrkoma og snjór fellur. Ég tel það til fyrirmyndar að hafa farið í stutt veggöng eins og undir Almannaskarð sem var mikill þröskuldur og mjög hættulegur. Það verður allt annað að fara um veg á þeim slóðum þegar sú framkvæmd verður tekin í notkun sem verður fljótlega.

Hv. flutningsmaður Þuríður Backman nefndi hér, og það kemur líka fram í greinargerðinni, þann möguleika að breikka vegi. Auðvitað hlýtur það að vera framtíðarmúsík. Best væri að það væri þegar orðið en við erum fá, fátæk og smá og byggjum stórt land. Á endanum hljóta þó vegir að verða breikkaðir. Það er hárrétt eins og hér kemur fram í greinargerð og í máli hv. þm. Þuríðar Backman að hvað alvarlegustu slysin verða á þessum þröngu vegum þar sem bílar eru að mætast. Þess vegna hefur maður áhyggjur af því og ber ugg í brjósti þegar allir þungaflutningarnir verða komnir á vegina.

Ég tek undir flest af því sem kom fram í máli hv. þm. Þuríðar Backman og bendi á að Vegagerðin stendur sig vel. Ég vil ítreka það. Starfsmenn hennar fara upp fyrir allar aldir og maður sér þá virkilega á þjóðvegunum. Sagan segir af þingeyskum bónda sem fór aldrei svoleiðis á milli þar sem leiðir voru varðaðar að hann væri ekki að berja snjó af vörðunum til þess að huga um þá sem á eftir kæmu, að þeir sæju örugglega vörðurnar. Maður sér starfsmenn Vegagerðarinnar fara reglulega um með bíla til að hreinsa vegstikurnar og allt er þetta gert til þess að auka umferðaröryggi.