131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Vegalög.

19. mál
[17:28]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég er meðflutningsmaður á þessu frumvarpi til laga um breytingu á vegalögum sem hv. þm. Þuríður Backman mælti fyrir. Ég vil í upphafi máls míns þakka góðar undirtektir hv. þingmanna sem hér hafa talað um frumvarpið.

Það er í hæsta máta eðlilegt að litið sé til öryggismála við endurbætur á þjóðvegum og hönnun nýrra vega ekki síst í ljósi þess að nú hafa öryggismál á þjóðvegum verið færð frá dómsmálaráðuneyti og undir samgönguráðuneyti. Auk þess var samþykkt á Alþingi sérstök átaksáætlun í umferðaröryggismálum með skilgreindum markmiðum um að fækka umferðarslysum til ársins 2012 og því er eðlilegt að við tökum til umræðu atriði sem hafa sérstaklega áhrif á öryggismál á þjóðvegum landsins og það er markmið þessa frumvarps. Í því felst engan veginn að það sé verið að gagnrýna þau verk sem hafa verið unnin til þessa, fjarri því, og ég get tekið undir þau orð sem hér hafa fallið um góða frammistöðu Vegagerðar ríkisins.

Megininntak þessa frumvarps er að við vegagerð og verklegar framkvæmdir verði stuðst við viðurkennda staðla — það er væntanlega gert nú þegar — en að þetta verði fært inn í vegáætlun eftir hvaða stöðlum nýir vegir og meiri háttar endurbætur eru gerðar, hvaða kröfur eru gerðar t.d. til öryggismála og eðlilegt að þeir staðlar séu birtir í vegáætlun þannig að hægt sé að sjá hvar ætlunin er að hafa slíka vegi og þá er líka hægt að koma fram athugasemdum ef ástæða er til um þá öryggisstaðla.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum einmitt verið með tillöguflutning sem hefur miðað að því að auka öryggi á þjóðvegum landsins. Við höfum lagt þunga áherslu á að fjarskiptasamband, GSM-símasamband verði aðgengilegt á öllum aðalþjóðvegum landsins, við teljum það gríðarlega mikilvægt öryggisatriði.

Hv. þm. Þuríður Backman hefur áður flutt tillögu um að gerð séu á skipulegan hátt sérstök göng undir þjóðvegina þar sem megi reka búfé í gegn án þess að þurfa að fara upp á og yfir vegina, sem ég tel mjög mikilvægt að fái ákveðinn sess, fái ákveðna stöðu í vegalögum, og að tekið sé tillit til þess því að mikil umferð er á vegunum og getur verið til mikilla vandræða að komast þar yfir, bæði gangandi og með búfé, og því mikilvægt að það sé einmitt tekið inn í hönnun veganna. Skipulega gerð göng fyrir búfé undir aðalþjóðvegi landsins þar sem brýnast er tel ég vera mikilvægan hluta af vegagerð.

Hér hefur verið minnst á einbreiðar brýr og þær eru allt of margar enn á aðalþjóðvegum landsins. Þegar við erum með öryggisáætlun í umferðinni er ástæða til að fara í að meta forgangsröðun við endurbætur á þjóðvegum landsins einmitt með tilliti til öryggismála. Það hefur ekki formlega verið gert, sem væri þó eðlilegt í tengslum við það þegar við höfum samþykkt nýja átaksáætlun í öryggismálum á þjóðvegum landsins. Við flutning á þessum verkefnum til Vegagerðarinnar væri eðlilegt að sú vegáætlun sem lýtur einmitt að öryggismálum væri formlega endurskoðuð.

Einnig hefur verið minnst á vegrið sem er líka mikilvægur þáttur í öryggismálunum og er mjög mikilvægt að komi inn í vegáætlun. Þegar verið er að birta hvers konar vegi eigi að leggja þá eigi vegrið að vera við hinar ýmsu aðstæður. Mér er ekki kunnugt um að beinar fastar reglur séu um hvar skuli vera vegrið og sjálfsagt er aldrei hægt að binda það svo. Við þekkjum það hér á Alþingi að eindregnar áskoranir hafa komið um að sett séu vegrið á mjög hættulega vegarkafla, þar sem mikil hálka myndast og bratt er fram af. Komið hafa fram miklar og eindregnar óskir þeirra sem nota slíka vegi um að þar verði bætt úr sem skjótast. Þetta er oft á tiltölulega nýlögðum vegum og mér er minnisstætt einmitt slíkt á Vestfjörðum fyrir tveimur árum. Þó að þetta sé ekki allt unnið í einu sé ljóst hver ætlunin sé í upphafi með öryggismál vega í nýbyggingu eða meiri háttar endurbótum.

Síðan er hitt atriðið sem hér er nefnt, þ.e. að kanna sérstaklega að vera með þrískiptan veg, að vera með tvær meginakreinar og síðan með reglulegu millibili eftir því sem þörf getur verið á þriðju akreininni fyrir framúrakstur eða annað slíkt sem nauðsynlegt er. Við erum allt of gjörn á að fara strax yfir í dýrustu lausnina, vera með fjórar akreinar, sem er kannski ekki þörf á. Við sjáum það þegar við keyrum hérna yfir Hellisheiðina þar sem skipt er í þrjár akreinar upp brekkur. Það yrði nú bara ófremdarástand ef ekki væri þessi þriðja akrein víða þar upp brekkur til að mæta þeirri þörf sem er þar, að sumir bílar verða að hægja á upp brekkurnar en aðrir geta haldið eðlilegum hraða og þá er þessi þriðja akrein mikilvæg.

Þetta er mun minni stofnkostnaður en að fara út í fjórar akreinar og auk þess kannski ekki heldur þörf á fjórum akreinum víða. En ekki síst í ljósi þeirra miklu þungavöruflutninga á flutningabílum á mjóum þjóðvegum landsins er kannski orðið mjög brýnt að koma upp þriðju akreininni með reglulegu millibili þar sem hætta væri á að mynduðust umferðarhnútar til að leysa þar úr. Ég held að skoða eigi þetta í alvöru, það sé mjög mikilvægt að skoða þetta og setja það jafnvel inn í einhverja forgangsröð við endurbætur á eldri þjóðvegum og við nýja þjóðvegi.

Við þekkjum þetta á leiðinni norður, upp Borgarfjörðinn, yfir Holtavörðuheiðina og áfram norður, að upp brekkur geta flutningabílar teppt umferðina langtímum saman. Ellegar þegar við erum með á sumrin hópa af bílum sem eru með stór fellihýsi, tjaldvagna eða hvað það nú er og aka hægar en almenn umferð gengur og þá geta þeir teppt umferðina langtímum saman. Þetta er því svo sannarlega atriði sem mér finnst mikilvægt að koma inn í vegalögin og að þessi þáttur sé formlega skoðaður þegar verið er að kanna hvernig megi bæði auka afkastagetu þjóðveganna og tryggja öryggi á þeim, þ.e. að þriðja akreinin komi inn með reglulegu millibili.

Ég vil síðan ítreka það að öryggismál á vegum eru orðin mikilvægur þáttur nú, t.d. hálkuvarnir, endurskoðaðar reglur um hálkuvarnir, því að um leið og vegirnir eru bornir upp og þeir malbikaðir þá verja þeir sig lengur snjó og um leið eykst á þeim hálkan. En við viljum komast greitt, ekki bara vegna þess að búið sé að moka heldur viljum við líka komast eftir veginum þó að það sé hált, þannig að reglulegar hálkuvarnir eru líka atriði í þessum öryggismálum sem er ástæða til að nefna hér.

Herra forseti. Þetta frumvarp okkar lýtur að því að öryggismálin verði með beinum hætti tekin inn í vegáætlun, öryggisþættirnir skoðaðir formlega og í hönnun nýrra vega séu fylgistaðlar hvað þetta varðar settir í vegáætlun svo hægt sé að fjalla um þá.

Annars vísa ég til góðrar framsögu hv. þm. Þuríðar Backman sem rakið hefur þetta mál ítarlega. Ég held að við getum öll verið sammála um að öryggismál á þjóðvegum landsins er eitt brýnasta hagsmunamál allra þeirra sem um vegina fara og endurskoðun á forgangsröðun þeirra þátta sem lúta að öryggismálum verður að vera stöðug.