131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Vegalög.

19. mál
[17:39]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir því að hv. þm. Jón Bjarnason lét að því liggja að það væri eðlilegt og rétt í ljósi öryggismála á þjóðvegi 1 og vegum landsins að það væri Vegagerðin sem mundi raða upp forgangsverkefnum með tilliti til öryggismála, ég skildi hann þannig.

Ég tel að það gæti verið af hinu góða. Hins vegar hef ég nú meira orðið var við það á hinu háa Alþingi að þingmenn hinna dreifðu byggða hafi nú ekki verið með þá sýn á vegamálin alltaf, því miður. Þá hefur kjördæmið frekar verið sett í forgang og á þeim málum hamast án tillits til — ja ef við nefnum þjóðveg 1 þar sem eru 60 einbreiðar brýr og mikið af ferðamönnum. Á sama tíma erum við öll að tala um að auka þurfi ferðaþjónustuna, við viljum fá fleiri ferðamenn og það hefur vissulega tekist. Ég get nefnt sem dæmi að bara í júlímánuði liggja þær upplýsingar fyrir að erlendir ferðamenn á bílaleigubílum keyptu þá eldsneyti fyrir 115 milljónir, bara í júlímánuði. Við sjáum því hvað er að gerast, hvernig þróunin er.

Við verðum aldeilis að taka til hjá okkur og taka af einbreiðar brýr, óþarfa beygjur á þjóðvegi 1 og leggja áherslu á það. Ekki að fara upp um fjöll og firnindi til að leggja þar bundið slitlag.

Ég get heils hugar tekið undir það með hv. þm. Jóni Bjarnasyni að það væri ekki svo fráleitt að biðja Vegagerðina um að forgangsraða verkefnum. En við auðvitað færum þá eftir því.