131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Vegalög.

19. mál
[17:43]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Í þessu frumvarpi til laga sem hv. alþingismenn Þuríður Backman og Jón Bjarnason flytja er nokkuð lagt upp úr vegakerfi sem kallast 2+1. Misjafnar sögur um það öryggi heyrir maður, t.d. hjá Íslendingum sem hafa ferðast í Svíþjóð og víðar og hafa notað þetta vegakerfi. Því er nauðsynlegt að skoða þetta mjög vel.

Við vorum að tala um erlenda ferðamenn á vegum, þjóðvegi 1. Því miður hafa orðið of mörg slys á erlendum ferðamönnum sem hafa verið á bílaleigubílum. Nokkuð hefur verið reynt að koma til móts við það, eins og ég gat hér um áðan, og á Slysavarnafélagið Landsbjörg, sem búið hefur til bæklinga og dreift í bílaleigubíla, þakkir skildar fyrir það.

En eitt vantar og það eru merkingar á erlendum tungumálum á þjóðvegi 1. Við Íslendingar erum jú stoltir af tungumáli okkar og viljum halda því vel til haga, en ég held að við komumst ekki hjá því að taka upp merkingar, t.d. á ensku, þar sem kaflaskil verða af bundnu slitlagi yfir á malarvegi o.s.frv. Við eigum mikið verk fyrir höndum í því.

Við erum þó sammála um eitt, ég og hv. þm. Jón Bjarnason, sem er gott, og það er áherslan sem á að leggja á þjóðveg 1. Síðan heyrist mér að hann sé ekki fráhverfur því að Vegagerðin hafi yfirráð yfir niðurröðun verkefna með tilliti til öryggis í vegaframkvæmdum.