131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Vegalög.

19. mál
[17:45]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir þær áherslur hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar að bæta merkingar á þjóðvegum á erlendum tungumálum. Ég tel það afar brýnt. Við erum að markaðssetja okkur sem ferðamannaþjóð. Við fáum fjölda ferðamanna til landsins og þá eigum við líka að bjóða upp á þessa þjónustu. Ég tek því alveg undir þau sjónarmið.

Ég ítreka þau sjónarmið mín að Vegagerðin hefur fengið öryggismálaþáttinn til sín og því eðlilegt að hún leggi upp rök og forsendur fyrir þeirri forgangsröðun sem þar er. Þó þingmenn taki að einhverju leyti ábyrgð á lokaniðurstöðunni verður hún að byggjast á faglegri vinnu Vegagerðarinnar sem hún tekur með formlegum hætti í áætlanagerð sína.

Að lokum vil ég árétta það sem við höfum rætt um mikilvægi þess að byggja upp þjóðveg 1 og vegaframkvæmdir í byggð. Þess vegna get ég ekki stillt mig um annað en að harma það að í fjárlögum fyrir næsta ár er lagður til nærri 1.900 millj. kr. niðurskurður frá gildandi vegaáætlun, sem ég tel vera ranga forgangsröðun. Það er eitt brýnasta málið að byggja upp aðalþjóðvegi landsins, bæta öryggi á vegunum. Þó mikið hafi verið gert á undanförnum árum er eitt stærsta atvinnumál þjóðarinnar að byggja upp gott vegasamband í byggð á Íslandi.