131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Vegalög.

19. mál
[17:57]

Örlygur Hnefill Jónsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Menn hafa víða um vegi farið en hv. flutningsmaður, Þuríður Backman, mátti á engan hátt taka ummæli mín fyrr í umræðunni þannig að ég teldi að í hinu ágæta frumvarpi fælist gagnrýni á Vegagerðina. Öll umræðan hefur að mínu viti verið mjög jákvæð í garð þeirrar ríkisstofnunar, Vegagerðarinnar. Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu og hv. 8. þm. Reykv. s., Guðmundur Hallvarðsson, nefndi það og ég tel mig fara rétt með, að fáar ríkisstofnanir hafa brugðist eins vel við og Vegagerðin í að nýta tækni og þar eru hlutir mjög til fyrirmyndar.

Þetta hefur verið góð umræða hjá okkur í dag. Það er gott að heyra þær áherslur sem fram komu hjá hv. þm., að auðvitað þarf að bæta þá þjóðvegi sem mest eru notaðir og þjóðvegur 1 hefur verið mikið í umræðunni. Smávægilegar bætur eins og að laga beygjur og fleira styttir leiðir, eykur umferðaröryggi og er þjóðhagslega hagkvæmt.

Umræðan sem hefur orðið með frumvarpinu er þörf og umræða um það. Ég tek heils hugar undir allt sem þar var sagt.