131. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2004.

Sameining Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík.

[13:36]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Sameining skóla á háskólastigi getur verið góður kostur og sjálfsagt að kanna það ítarlega. Hins vegar ber tilkynningin um fyrirhugaða sameiningu Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík undarlega að, án nokkurrar umræðu, ekki orð á Alþingi, ekki orð í menntamálanefnd, einungis tilkynningar og fréttir í fjölmiðlum. Það er ámælisvert.

Fyrirhuguð sameining vekur einnig upp margar spurningar eins og þá hvort farið hafi fram kannanir á öðrum sameiningarkostum á háskólastigi. Fyrirhuguð sameining kemur að sjálfsögðu vel til greina og getur verið góður kostur en þá þarf að liggja fyrir að aðrir sameiningarkostir séu síðri og þetta hafi í för með sér öflugri tæknimenntun og síðast en ekki síst aðgengi að grunntækninámi óháð efnahag og án gjaldtöku umfram hefðbundin skráningargjöld. Það er óásættanlegt ef ekki verður í boði grunntækninám og nám í frumgreinadeild Tækniháskólans án greiðslu skólagjalda. Ríkið á að tryggja framboð á grunntækninámi án gjaldtöku eins og öðru grunnnámi á háskólastigi. Það er að mínu mati skilyrði fyrir slíkri sameiningu að nemendur nú og til framtíðar í grunntækninámi og í frumgreinadeild tæknináms eigi kost á því að stunda slíkt nám án greiðslu hárra skólagjalda líkt og í öðru grunnnámi á háskólastigi.

Það er alger forsenda fyrir slíkri sameiningu, en að því skilyrði uppfylltu kemur hún að sjálfsögðu vel til greina og getur verið sóknarfæri í því að efla enn frekar háskólanámið á Íslandi og ekki síst nám í tæknigreinunum því því fer fjarri að nægjanlega vel sé staðið að tækninámi á Íslandi. Við erum verulegir eftirbátar annarra þjóða í því nú þegar og það verður að efla. Það verður því að vera alger forsenda fyrir sameiningunni að tækninámið eflist verulega og ekki verði innheimt skólagjöld fyrir nám í grunntækninámi eða frumgreinadeild.