131. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2004.

Sameining Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík.

[13:41]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Tilgangur sameiningar Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands er réttmætur. Efla á samskipti atvinnulífs og skólans og mun það án efa vera forsenda framþróunar og aukinnar samkeppnishæfni í atvinnulífi hér á landi. (Gripið fram í: Hvað með skólagjöldin?) Þetta hljómar vel og við höfum í mörg ár talað um að efla þurfi tæknimenntun í landinu. Ég tel engan vafa leika á því að sameiningin muni stuðla að því. Hins vegar eru mörg atriði sem við þurfum að skoða og eiga eftir að koma til umræðu í þinginu. Þar ber auðvitað hæst umræða um skólagjöld.

Í viljayfirlýsingunni sem undirrituð var í gær er gert ráð fyrir að háskólinn hafi heimild til að innheimta skólagjöld. Það er engin nýbreytni í tilfelli Háskólans í Reykjavík en er nýtt fyrir Tækniháskólann. Þar eru námsleiðir sem hingað til hafa ekki borið skólagjöld. Má þar nefna heilbrigðisgreinar eins og geislafræði, meinafræði og t.d. frumgreinadeild.

Ég ítreka að ég fagna sameiningunni og tel að í henni felist mikil tækifæri. En málið á eftir að fá þinglega meðferð og við munum og eigum eftir að fá að sjá nánari útfærslu sem og röksemdafærslu málsaðila.