131. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2004.

Sameining Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík.

[13:50]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er fátt um svör hjá hæstv. menntamálaráðherra varðandi þá pólitík sem hér er rekin, þ.e. varðandi skólagjöldin. Við getum ekki horft fram hjá því að í Tækniháskóla Íslands er ekki bara fólk á háskólastigi. Þar eru líka iðnaðarmenn sem hafa lokið iðnaðarnámi að taka raungreinadeildapróf sem er ígildi stúdentsprófs. Eiga þessir nemar nú að fara sjálfkrafa inn í sjálfseignarstofnun sem innheimtir 200 þús. kr. í skólagjöld á ári? Við verðum að fá svör við þessum spurningum. Og hér segja þingmenn stjórnarliða að þetta hafi ekki átt að koma neinum á óvart. Þetta kemur fólki náttúrlega það mikið á óvart að ekki er lengra síðan en í morgun að menntamálanefnd Alþingis sat á fundi þar sem var listi yfir þingmálin sem menntamálaráðherra ætlar að leggja fram í vetur. Eitt þingmál á þeim lista var í morgun skráð frumvarp til laga um Tækniháskóla Íslands. Embættismaður hæstv. ráðherra varð að tilkynna okkur að þessu yrði breytt því frumvarp yrði flutt um afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

Auðvitað kemur þetta okkur á óvart. Auðvitað er þetta illa undirbúið og það er skammarlegt að ekki skuli eiga sér stað umræða í samfélaginu um svona stóra ákvörðun áður en hún er tekin. Hvers vegna erum við ekki frekar að ræða mögulega sameiningu verkfræðideildar Háskóla Íslands og Tækniháskóla Íslands? Hvers vegna ekki? Það er stór pólitísk spurning sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn verða að svara. Þess vegna ítreka ég spurningu hv. þm. Jóns Bjarnasonar: Er Framsóknarflokkurinn og hv. þingmenn hans sáttir við það ráðslag sem hér er haft á hlutunum? Hér er verið að kippa úr sambandi efnahagslegu jafnrétti fólks til náms á Íslandi. Og það er greinilegt að það á að fara að innheimta skólagjöld af nemum í grunnnámi, jafnvel í námi sem hvergi annars staðar er í boði en þá fyrir þau háu skólagjöld.