131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Opinber verkefni og þjónusta á landsbyggðinni.

81. mál
[14:00]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Í byggðaáætlun sem samþykkt var 3. maí 2002 getur að líta margar fallegar hugmyndir og góðan texta settan á blað. Þar stendur m.a., með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi áætlunar um byggðamál fyrir árin 2002–2005. Meginmarkmið áætlunarinnar verði eftirfarandi.“ — Markmiðin eru síðan talin upp í fimm liðum.

Allt eru þetta góð orð á blaði þó að stundum finnist manni ekki eins mikið gert úr þeim hlutum sem þar eru settir á blað. Einn liðurinn sem á eftir fylgir snýr að eflingu opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni sem er samkvæmt áætluninni á ábyrgð forsætisráðherra eða forsætisráðuneytisins. Meginhugmyndin þar var að gerð yrði áætlun um að fjölga verkefnum og störfum í opinberri þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins, t.d. með því að efla þær stofnanir sem fyrir eru í tengslum við endurskipulagningu opinberra stofnana, með fjarvinnslu, með flutningi verkefna frá opinberum aðilum til fyrirtækja þegar nýjar opinberar stofnanir eru settar á fót og hugsanlega með flutningi stofnana.

Markmiðið með þessu átti að vera, virðulegi forseti, að efla stærstu byggðarlögin — ég tek fram að þar stendur stærstu byggðarlögin — á landsbyggðinni jafnframt því sem opinber verkefni og þjónusta yrðu endurskipulögð og starfsemin gerð árangursríkari. Opinberar stofnanir á landsbyggðinni áttu ekki aðeins að hafa svæðisbundið þjónustuhlutverk með höndum heldur yrðu stofnanir sem þjóna öllu landinu einnig staðsettar á landsbyggðinni.

Hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra setti málið í gang í janúar 2003 í aðdraganda kosninga. Hann fór skiljanlega að dusta rykið af málum og fékk til liðs við sig hv. þm. Halldór Blöndal, forseta Alþingis, og hv. þm. Magnús Stefánsson til að gera enn eina skýrslu og gera forsætisráðuneyti grein fyrir því hvernig þetta ætti að fara.

Niðurstaðan var sett fram í skýrslu og í framhaldi af því, virðulegi forseti, kemur fram að áfram eigi að vinna að þessu verkefni. Það var ekki tímasett eða skipulagt hvernig það ætti að gerast heldur fjallað um það á almennan hátt, sem sagt falleg orð á blaði rétt einu sinni í sambandi við byggðamál.

Í lokin segir að forsætisráðherra muni í framhaldi af þessari skýrslu vinna áfram að gerð tillagna og áætlun um eflingu opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni. Að því var stefnt að þessi tillaga lægi fyrir á næstu mánuðum. Það var sú tillaga sem hv. þm. Halldór Blöndal tók þátt í að skila hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra.

Í framhaldi af því sem hér hefur verið sagt vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra eftirfarandi spurningar sem sett er fram á þskj. 81:

„Hvað líður gerð áætlunar um að auka verkefni og fjölga störfum í opinberri þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins?“