131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Opinber verkefni og þjónusta á landsbyggðinni.

81. mál
[14:07]

Örlygur Hnefill Jónsson (Sf):

Frú forseti. Frumatvinnuvegir landsbyggðarinnar, sjávarútvegur og landbúnaður, hafa því miður verið á undanhaldi. Auðvitað horfir landsbyggðin til þess að opinberum störfum verði fjölgað þar þótt ekki væri nema í hlutfalli við það sem gerist á höfuðborgarsvæðinu. Það að setja niður opinber störf á ákveðnum stöðum treystir byggð og treystir eignir fólksins sem byggir þá staði. Ég hef bent á að víða á landsbyggðinni hafa fasteignir fólks rýrnað. Það mun vera til skoðunar hjá Alþingi eftir að ég flutti þingsályktunartillögu um það efni.

Það treystir eignir fólks á höfuðborgarsvæðinu þegar opinberum störfum fjölgar hér og eins og ég segi mundi hið sama gerast á landsbyggðinni. En það er rétt sem hæstv. forsætisráðherra segir, að sitthvað hefur verið gert og það ber að þakka.

Ég lagði fram fyrirspurn á 128. löggjafarþingi til allra ráðuneyta og ráðherra um hvernig störfum hefði fjölgað í viðkomandi ráðuneytum og hver skiptingin væri milli landshluta.