131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Opinber verkefni og þjónusta á landsbyggðinni.

81. mál
[14:12]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það virðist ekki hafa verið mikið gagn af þeirri áætlun eða hugmyndum sem fram komu fyrra skiptið úr því að það þarf strax að vinna aðra skýrslu um þessi mál.

Það er svo sem hægt að taka undir það sem hæstv. forsætisráðherra sagði, að áætlanir væru ekki uppspretta alls. En þær sýna þó vilja manna til þess að gera einhverja hluti og það hefur farið ótrúlega langur tími í að undirbúa það sem hér er um að ræða.

Ég held t.d. ekki að margir í Norðvesturkjördæmi kannist við efndir af því tagi sem hér hefur verið lýst, hreint ekki. Ég held að það sé fyrir löngu kominn tími til að menn sýni svolítið á spilin sín og hvað þeir vilja gera í þessum málum. Sumir í Norðvesturkjördæmi segja að byggðastefna ríkisstjórnarinnar sé eitt allsherjar „Halló Akureyri“. Það er svolítið til í því. Það er nefnilega þannig að byggðamálin koma afar misjafnlega niður af hendi þeirra sem hafa völdin í þessu landi.