131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Opinber verkefni og þjónusta á landsbyggðinni.

81. mál
[14:14]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Mér finnst það reyndar orðið hálffarsakennt þegar ég heyri af munni hæstv. forsætisráðherra að það skref sem nú er tekið til að flytja störf af þessu tagi út á landsbyggðina sé að fá hv. þingmenn Halldór Blöndal og Magnús Stefánsson aftur til að gera nýja skýrslu. Þeir hafa nýlokið skýrslu sem liggur fyrir hjá hæstv. viðskiptaráðherra og hæstv. forsætisráðherra. Hvað er að henni? Hvers vegna í ósköpunum þarf að fá þessa ágætu menn til að endurvinna þetta? Væri ekki frekar ráð að koma á slíkri endurvinnslu úti á landsbyggðinni til að skapa störf þar? Af því að hæstv. forsætisráðherra sagði að menn mættu ekki misvirða það sem þó væri vel gert þá verð ég að rifja upp að menn hafa lofað hlutum sem ekki hafa gengið eftir.

Hæstv. forsætisráðherra sagði 15. ágúst 1999, þegar hann var viðstaddur opnun starfsstöðvar Íslenskrar miðlunar á Stöðvarfirði, að hann teldi sjálfsagt að ríkið keypti þjónustu af þeim einkaaðilum til að styðja það framtak. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Efndi hann það nokkurn tímann?