131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Opinber verkefni og þjónusta á landsbyggðinni.

81. mál
[14:15]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er ævinlega verið að semja skýrslur á skýrslur ofan um það hvernig atvinnumál þróast, m.a. á landsbyggðinni. Sú stefna hefur jú verið mótuð sem hér hefur komið fram að fjölga eigi opinberum störfum á landsbyggðinni. Eftirfylgnin er hins vegar engin. Það var líka skrifuð um það skýrsla árið 2001 hvað mundi gerast á Vestfjörðum ef kvótasett yrði í smábátunum, í ýsu, ufsa og steinbít. Þar var spáð að störfum mundi fækka um 100 í fiskvinnslu og 200 í sjómannsstörfum í smábátum á Vestfjörðum. Því miður gekk það að stærstum hluta eftir en ég hef ekki orðið var við nokkrar einustu efndir á nokkurri stefnu af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að koma á móts við þann samdrátt og efla atvinnustigið á landsbyggðinni.

Ég spyr þá hæstv. forsætisráðherra úr því hann minntist á háskóla á Vestfjörðum: Mun forsætisráðherra styðja það að við fáum að stofna háskólasetur á Vestfjörðum?