131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Opinber verkefni og þjónusta á landsbyggðinni.

81. mál
[14:16]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Frú forseti. Ég verð að segja að mér þótti svar hæstv. forsætisráðherra heldur snubbótt. Hann notaði megnið af tíma sínum til að lesa orðrétt upp úr skýrslu iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar 2002–2005 um þennan kafla, segja okkur svo frá því að hv. þm. Halldór Blöndal og Magnús Stefánsson hefðu einhvern tímann skrifað skýrslu og að hans fyrsta verk hefði verið að biðja þá að skrifa fleiri skýrslur.

Hæstv. forsætisráðherra. Það hefur fyrir löngu komið fram að fólk lifir ekki á skýrslum einum saman. Það er komið nóg af skýrslum í byggðamálum. Okkur vantar aðgerðir. Ég get tekið undir það sem hæstv. forsætisráðherra sagði hér um háskólana og allt þetta. Þetta er flott og fínt og allir sammála um það. Þetta er mjög gott, álverið fyrir austan o.s.frv. Við erum að tala um þau byggðarlög sem eru að mélast niður enn þá, byggðarlög sem njóta ekki ávaxtanna af þessu. Hvað t.d. með lítið byggðarlag sem telur 1.500 manns í dag og er að tapa 70 manns frá sér á þessu ári vegna samdráttar í sjávarútvegi? Gera menn sér grein fyrir því að tekjusamdráttur sveitarfélagsins er 20 millj. vegna þessa fólks? Gera menn sér t.d. grein fyrir því svari um framlög sveitarfélaga til fræðslumála við fyrirspurn minni sem var dreift í gær? Við getum talað um það í sambandi við verkfallið. 70–80% af tekjum sveitarfélaga úti á landi fara til fræðslumála. Hvernig í ósköpunum eiga þessi sveitarfélög að taka þátt í einhverri atvinnuuppbyggingu eða öðru slíku til að halda í íbúana sem við viljum ekki missa í burtu?

Nei, hæstv. forsætisráðherra, það þarf að gera betur en að lesa hér upp úr gömlum skýrslum. Það þarf að fara í aðgerðir gagnvart þessum litlu byggðarlögum sem eins og ég segi njóta ekki ávaxtanna af háskólunum, álverinu, nýsköpunarmiðstöðinni eða einhverju öðru. Það eru fleiri sveitarfélög í landinu.

Ég verð að segja alveg eins og er (Forseti hringir.) að mér leiðist það þegar skapillur forsætisráðherra kemur hingað og að þegar maður vogar sér að tala við hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra um byggðamál telji hann að menn séu að tala kjarkinn, ekki bara úr landsbyggðarfólki (Forseti hringir.) heldur bara landsmönnum öllum.