131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Jöfnun starfsskilyrða atvinnuveganna milli landshluta.

84. mál
[14:21]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Frú forseti. Í upphafi máls míns vil ég hæla hæstv. ríkisstjórn fyrir allt það góða sem hægt er að gera í byggðamálum og hefur verið gert, m.a. í háskólum, álver fyrir austan, nýsköpunarmiðstöð fyrir norðan, Impra o.s.frv. Það er allt saman gott og blessað sem gert hefur verið en það er svo margt annað sem ekki hefur verið gert, hefur verið sett á blað sem áform, áætlanir, samþykkt 2002 en er ekki mikið komið til framkvæmda.

Þess vegna hef ég leyft mér að leggja fyrirspurn fyrir hæstv. iðnaðarráðherra um hvað líði aðgerðum til þess að jafna starfsskilyrði atvinnuveganna milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis sem boðaðar eru í núgildandi byggðaáætlun. Þar segir m.a. um þennan kafla, með leyfi forseta:

„Að ríkisstjórnin láti fara fram heildarathugun á mismunandi starfsskilyrðum atvinnuveganna eftir landshlutum og á áhrifum þeirra opinberu aðgerða sem þegar hefur verið beitt til jöfnunar starfsskilyrða. Skoðaðar verði sérstaklega skattalegar aðgerðir og í því sambandi horft til reynslu nágrannaþjóða. Á grundvelli rannsóknar verði lagðar fram tillögur um aðgerðir.“

Markmiðið var að „fá niðurstöðu um það hver sé raunverulegur mismunur á starfsskilyrðum fyrirtækja og sjálfstætt starfandi atvinnurekenda eftir landshlutum, svo sem um áhrif flutningskostnaðar og reglna um þungaskatt og áhrif tryggingagjalds og virðisaukaskatts. Jafnframt verði rannsökuð áhrif þeirra opinberu aðgerða sem þegar hefur verið beitt í þessu skyni.“

Ábyrgð á þessari framkvæmd, virðulegi forseti, var á höndum iðnaðarráðuneytisins. Til að stytta hæstv. iðnaðarráðherra tímann við lestur á eftir tek ég fram að iðnaðarráðherra fól Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Byggðarannsóknastofnun á Akureyri að gera um þetta skýrslu og út kom bók, Fólk og fyrirtæki, mjög góð bók, með fullt af góðum tillögum.

Hér hefur verið rætt um starfsskilyrði og minnst á skatta, eins og virðisaukaskatt, þungaskatt og annað, og jöfnun skilyrða atvinnurekstrar, atvinnufyrirtækja, sama hvar þau eru á landinu. Ég tek sem dæmi um hvað hæstv. ríkisstjórn hefur gert, svo það líti ekki út sem ekkert hafi verið gert. (Gripið fram í.) Í skattkerfisbreytingunni 2001 beitti hæstv. iðnaðarráðherra sér, og ríkisstjórnin, fyrir breytingum á lækkun tekjuskatts lögaðila úr 30% í 18% árið 2001 og lækkun eignarskatts á lögaðila en hækkaði tryggingagjald. Hvaða áhrif hafði þetta á starfsskilyrði landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis? Jú, í Reykjavík og á Reykjanesi græddu fyrirtækin 2,7 milljarða kr. á þessari skattkerfisbreytingu. Á Norðurlandi vestra græddu fyrirtækin 2 millj. kr. á þessum skattkerfisbreytingum, aðeins 2 millj., á Vesturlandi og á Vestfjörðum var hagnaðurinn af þessari skattkerfisbreytingu 4 millj. kr.

Landsbyggðarfyrirtækin fengu ekki að njóta skattalegs ávinnings vegna þessara breytinga. Það er þetta sem ég er að spyrja um hér: Hvað hefur verið gert annað en að auka þennan mismun og minnka starfsskilyrði fyrirtækja á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu?