131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Jöfnun starfsskilyrða atvinnuveganna milli landshluta.

84. mál
[14:29]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Því ber að fagna að á morgun verður hægt að taka ærlega umræðu um byggðamál við hæstv. ráðherra byggðamála því að fyrir þeim málum verður ekki gerð grein í stuttu máli.

Ráðherra talaði áðan um að þrjá byggðarkjarna ætti að styrkja sérstaklega. Ég vil benda á að til að það þjóni tilgangi þurfa samgöngur við þá að vera góðar en því er ekki að heilsa í öllum tilfellum, allra síst á Ísafjarðarsvæðinu þar sem samgöngur milli suður- og norðurfjarða eru útilokaðar stóran hluta ársins.

Nú háttar svo til að samkvæmt fjárlögum þessa árs og á næsta ári líka er fyrirhugaður stórfelldur niðurskurður einmitt í vegamálum. Því skýtur skökku við að það eigi að fara að byggja upp kjarna til að þjóna stórum svæðum en ekki eigi jafnframt að tryggja að samgöngur við þessa tilteknu kjarna séu viðunandi.