131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Uppgreiðslugjald.

87. mál
[14:48]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, en mér fannst nú, virðulegi forseti, að þau væru nokkuð opin í báða enda og erfitt að átta sig á afstöðu hæstv. ráðherra til uppgreiðslugjaldsins. Fyrirspurn númer tvö gengur einmitt út á það hvort ráðherra sé reiðubúin að beita sér fyrir lagabreytingu og taka af öll tvímæli í þessu efni. Það er auðvitað óþolandi og gengur ekki að fólki sé refsað svona harkalega eins og bankarnir gera ef það ætlar að greiða upp skuldir sínar.

Við getum tekið sem dæmi 8 millj. kr. lán, ef einhver ætlar að greiða það upp, þá þarf hann kannski að greiða 160 þús. kr. í uppgreiðslugjald. Slíkt gengur auðvitað ekki.

Ég fagna því þó sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að hún telji að til greina komi að setja skorður við uppgreiðslugjaldi og ég hvet ráðherrann til að fylgja því eftir.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi kynnt sér nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar á árinu 2000 þegar fjallað var um neytendalán þar sem þetta ákvæði var útvíkkað. Gert var ráð fyrir að lánasamningar sem tryggðir eru með veði í fasteign séu undanþegnir lögum um neytendalán — það hafi verið gert áður — og gert var ráð fyrir að þeim yrði breytt þannig að það taki til lánasamninga sem Íbúðalánasjóður gerir eða annarra sambærilegra fasteignaveðlánasamninga sem gerðir eru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis. Sem sagt, efnahags- og viðskiptanefnd útvíkkaði þetta þannig að þessi lán falla undir lögin um neytendalán að mínu viti ótvírætt og það er í samræmi við það sem Neytendasamtökin segja, að samkvæmt lögum um neytendalán eigi einstaklingar ótvíræðan rétt til að greiða lán sín upp fyrir gjalddaga og það án nokkurra takmarkana eða skilyrða.

Ég hvet því hæstv. ráðherra til að fylgja þeirri yfirlýsingu sem hún tók þó hér fast eftir og að settar verði skorður við uppgreiðslugjaldi og auðvitað helst af öllu að fella það niður.