131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Uppgreiðslugjald.

87. mál
[14:51]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég tel mjög eðlilegt að umræða komi hér upp um þetta mál á hv. Alþingi þar sem þetta hefur verið mikið til umfjöllunar í þjóðfélaginu. Eins og kom fram í máli mínu skipaði ég nefnd þegar í september sem er að fjalla um þessi mál og m.a. það hvort uppgreiðslugjaldið eigi rétt á sér og þá líka hvort setja þurfi einhverjar skorður við því í lögum hversu hátt það megi vera, því að mín skoðun er sú að það þurfi að stilla því í hóf ef yfirleitt á að vera heimilt að beita slíkri gjaldtöku.

Þess vegna er það nú sem ég vil ekki kveða upp úr um hluti á þessari stundu að málin eru til umfjöllunar. Ég ítreka það líka sem fram kom í máli mínu áðan að úrskurðarvald er ekki hjá ráðherra í þessum efnum þegar óljóst er eða ekki er hægt að segja algjörlega ótvírætt hvað lög þýða, eins og er í þessu tilfelli. En ég hef fullan skilning á því sem hv. þm. er að fara með máli sínu og hún mun þá fylgjast með því hvað kemur út úr því nefndarstarfi sem er í gangi.