131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Fjármálaeftirlitið.

157. mál
[15:01]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það gleymist stundum í þessari umræðu að hlutverk Fjármálaeftirlitsins er fyrst og fremst að tryggja trúverðugleika á markaðnum, þ.e. að litlir og meðalstórir fjárfestar treysti sér til að setja fjármuni á þennan markað. Það er afar slæmt þegar reglurnar eru þannig úr garði gerðar að ekki megi birta rannsóknir og úrskurði sem kveðnir eru upp þegar grunur leikur á að menn hafi ekki spilað samkvæmt þeim reglum sem fyrir eru settar og slíkt dregur úr trúverðugleik markaðarins. Þess vegna er mjög mikilvægt að það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið að tala fyrir nái fram að ganga og þetta eftirlit verði miklum mun virkara. Hlutverk ríkisins er að setja reglur og tryggja trúverðugleika markaðarins til þess að fjárfestar séu tilbúnir til að setja fjármagn inn á þennan markað og eins og staðan er núna er þetta ekki í nægilega góðu horfi. Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til að segja meira, virðulegi forseti, en aðeins að stefnt skuli að.