131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Fjármálaeftirlitið.

157. mál
[15:02]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég vil fagna því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að hún ætlar að beita sér fyrir því að sett verði lög sem munu auka gegnsæi í störfum Fjármálaeftirlitsins og ég skil ráðherrann svo, og hún mótmælir því þá ef svo er ekki, að slíkt frumvarp muni fljótlega sjá dagsins ljós hér á þinginu. Það þarf virkilega að efla Fjármálaeftirlitið, gera það virkara og auka trúverðugleika og traust á því, og ég held að þetta sé ágæt leið til þess.

Mér fannst hæstv. ráðherra aftur á móti frekar draga lappirnar að því er varðar fyrirspurn nr. 2 hvort ráðherrann telji rétt að Fjármálaeftirlitið fái heimild til að beita sektum t.d. vegna innherjasvika. Hæstv. ráðherra stefnir að því að fá slíkar heimildir en þá þarf að fara yfir viðurlög við efnahagsbrotum áður. Ég spyr hæstv. ráðherra hvernig hún hyggst vinna að þessu máli áfram. Ég hafði fullan hug á að setja fram frumvarp um þetta efni en ef það er í fullri vinnslu hjá hæstv. ráðherra og málið lítur dagsins ljós á þingi fljótlega þá mun ég auðvitað halda að mér höndum í því efni.

Ég sé ekki hvernig hæstv. ráðherra kemst hjá að beita sér fyrir slíkri lagasetningu að það komi heimildir til að beita sektum fyrir innherjasvik. Í því sambandi minni ég á, eins og ég nefndi í framsögu minni áðan, að í Evrópustarfsemi verðbréfaeftirlita og í nýjum tilskipunum Evrópusambandsins er stefnan sú að unnt verði að ljúka innherjasvikamálunum sjálfum með stjórnvaldssektum og ég tel það afar mikilvægt tæki fyrir Fjármálaeftirlitið að hafa slíkar heimildir og ég spyr: Hvað er það sem mælir frekar á móti því að Fjármálaeftirlitið fái tafarlaust þannig heimildir án þeirrar rannsóknar sem ráðherrann er að boða að fari fram á viðurlagakaflanum við efnahagsbrotum þegar t.d. skattrannsóknarstjóri og Samkeppnisstofnun hafa slíkar heimildir til að beita viðurlögum á stjórnsýslustigi? Þar eru fordæmin og ég spyr ráðherra: Eftir hverju erum við að bíða?