131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Minjagildi kirkjumuna og kirkjugarða.

109. mál
[15:15]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna því að farin sé af stað stefnumótun um minjavernd. En þar sem ég var að spyrja um skráningu og sérstaklega um verndun á þessum gripum og einnig menningarverðmætum í kirkjugörðum þá er ljóst að frá næstkomandi áramótum verður engin fjárveiting til þess að sinna því starfi. Ég veit að þetta hefur verið sett í forgang hjá stofnuninni en það er ekki svigrúm til þess. Það er eitt stöðugildi sem stofnunina vantar til að geta sinnt því stjórnsýsluhlutverki sem henni ber lögum samkvæmt að gera, þ.e. að sinna skipulegri skráningu og mati á minjagildi kirkjumuna og kirkjugarða. Ég held að það sé mjög mikilvægt að ráðherra geri stofnuninni kleift að sinna þessu starfi. Þó svo að stefnumótunin fari í gang þarf að sinna því engu að síður. Legsteinar veðrast og ekki verður hægt að lesa á þá eftir því sem tíminn líður og auk þess þarf auðvitað að auka öryggi í kirkjum og skrá þá gripi sem þar eru, sem margir eru mjög mikilvægir.

Virðulegi forseti. Ég skora á hæstv. ráðherra að sjá til þess að á meðan stefnumótunarvinnunni vindur fram tryggi hún að unnt verði að sinna því starfi áfram sem verið er að vinna hjá Fornleifaverndinni.